Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Morðingjarnir - Loftsteinn

Mynd með færslu
 Mynd: Doddi - Morðingjarnir

Morðingjarnir - Loftsteinn

11.07.2016 - 12:05

Höfundar

Íslenska rokkhljómsveitin Morðingjarnir gaf út sína fjórðu breiðskífu miðvikudaginn 15. júní og ber hún nafnið Loftsteinn. Platan er sú fyrsta frá sveitinni síðan árið 2009 og verður til að byrja með eingöngu fáanleg stafrænt — í formi streymis — án endurgjalds. Loftsteinn hefur verið lengi að líta dagsins ljós en upptökur hófust í árslok 2012. Nokkur lög af plötunni hafa hljómað í útvarpi, þá helst lagið Milli svefns og vöku, sem sat lengi á Pepsi Max–lista X977 yfir vinsælustu lögin. Plata

Platan er sú fyrsta frá sveitinni eftir að hún varð formlega kvartett, en það er Baldur Ragnarsson úr hljómsveitinni Skálmöld sem bættist við á gítar. Hann kom seint inn í upptökuferlið en náði þó að taka upp smá gítar og bakraddir.

 

Haukur Viðar Alfreðsson:

Loftsteinn er fjórða platan okkar og við vorum frekar lengi að gera hana. Við lentum í einhverri tilvistarkreppu sem hljómsveit og enduðum á því að setja plötuna ofan í skúffu, fullkláraða, og ætluðum ekki að gefa hana út. En svo líður tíminn og stundum er bara nóg að hvíla sig aðeins á því sem maður er að gera til þess að kunna að meta það aftur. Það var einmitt það sem gerðist þarna. Eftir eitt og hálft ár af barneignum, tjaldvagnaferðum og gráum fiðringi fór okkur að finnast platan aftur góð. Og við erum bara mjög ánægðir með hana.

 

Þú getur nálgast Loftsteininn á netinu, án endurgjalds, til dæmis á Spotify, en við ákváðum að gera þetta þannig að þessu sinni. Við vildum bara koma plötunni okkar til fólksins sem fyrst, á einfaldan hátt, svo við getum farið að semja næstu plötu.