Morð og myrkraverk í Barbíhöfuðborg heimsins

Mynd: Jennifer Boyer / Flickr

Morð og myrkraverk í Barbíhöfuðborg heimsins

26.01.2020 - 11:42

Höfundar

Júlía Margrét Einarsdóttir fjallar um stjörnurnar í Hollywood myrkurs og dauða, frægðargötuna, sundlaugarpartýin og fjöldamorðsminnisvarðana á Safni Dauðans.

Júlía Margrét Einarsdóttir skrifar:

Los Angeles, borg englanna og kvikmyndaiðnaðarins, er án nokkurs vafa glamúr höfuðborg hins Vestræna heims og heimili hinna ósnertanlegu og síungu Hollywood stjarna. Á Walk of Fame gangstéttinni á Hollywood Boulevard eru nöfn hinna skæru stjarna meitluð í stein, römmuð inn í gullstjörnu. Stjarnanna sjálfra sem eiga glæsivillur í hæðunum sem tróna yfir hverfinu, verslar hönnunarklæðnað í Beverly Hills, drekkur grænan Matcha latte á hipsterakaffihúsum í Silver lake og dillar bossum í takt við stróbljós á klúbbum í West Hollywood alltaf temmilega glossuð fyrir myndavélina. Þess á milli segja þau sögur af sér og okkur hinum fyrir framan rúllandi kvikmyndatökuvél í Studio city og taka dramatísk andköf yfir harmi heimsins sem er vandlega innpakkaður í vel byggðar leikmyndir og ýktur með tilburðarmiklum drónaskotum.

Illskan í nóttinni

Til Englaborgarinnar flykkjast svo líka reglulega vongóðar sálir sem freista þess að tilheyra þeim skæra hópi. Með einlæga ósk um að fá tækifæri lifa drauminn, horfa þau löngunaraugum á þau fallegu og ríku sem virðast ekki hafa sekúndu aflögu til að sofa eða því síður leiðast, að minnsta kosti samkvæmt Instagram reikningum þeirra. Í Barbíborg er líka nær alltaf sumarveður og tilefni til að vera elgtanaður á brakandi bíkíníbrók í janúar, í borginni þar sem hvergi snjóar nema í sundlaugarpartýjum. Klukkan er alltaf passlega kokteill, sólin risin klukkan sex á morgnanna og á kvöldin eru bílljósin og diskóljósin á klúbbunum tendruð til að lýsa upp myrkrið. En þangað hafa þeir líka komið sem hafa séð drauma sína, vonir og þrár fara í súginn. Og enn aðrir mæta illskunni sem leynst getur í myrkri Kaliforníu nóttinni, og hljóta grimmileg örög.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Óskað eftir upplýsingum um ferðir Svörtu Dalíunnar 1947

Svarta Dalían flytur til Los Angeles

Þangað flutti ég reyndar sjálf, 28 ára til að læra kvikmyndahandritaskrif og upplifði lítið af þeim glamúr sem ég lýsti hér heldur varði dögum í yfirkældum skólastofum og borðaði örbylgjuhitaðan Burrito úr dollarabúðinni án þess þó að verða mikið meint af dvölinni. Fylgdist auðvitað með flottheitum úr fjarska, kíkti stundum á söfn og bakaði mig í sólinni á milli anna. En til þessarar borgar flutti einnig ung stúlka að nafni Elizabeth Short, brosmild með svarta slöngulokka og leyndardómsfullt bros, alla leið frá Boston á fimmta áratugnum. Upprennandi leikkona með meiri væntingar en ég og mun háleitari markmið fyrir dvöl sína. Hún var eins og margir þann draum í farteskinu eins og margar aðrir að verða fræg leikkona. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Sharon Tate var komin langt á leið með barn sitt og Polanskis þegar hún var myrt

Ef Sharon Tate hefði lifað

Þangað flutti líka Dallas mærin Sharon Tate frá Ítalíu, varð heitbundin leikstjóranum Roman Polanski, tilnefnd til Golden Globe verðlauna og eignaðist þéttan vinahóp af fínu og frægu fólki. Draumur margra uppfylltur og hefði saga hennar farið nákvæmlega eins og annar leikstjóri sagði hana í kvikmynd sem hann fékk einmitt fyrrnefnd Golden Globe verðlaun fyrir, væri Sharon Tate mögulega enn stödd í Hollywood nokkrum afkvæmum og glæstum ferli ríkari. En hún lifði dvöl sína ekki af og það gerði Elizabeth Short, eða svarta Dalían eins og hún var kölluð, ekki heldur.

Því Walk og fame gatan er ef vel er að gáð gjarnan böðuð ælu og skreytt tyggjóklessum. Barbíbærinn breytist í Gotham city þegar myrkrið skellur á og íbúar daðra viđ djöfulgang á Búlevarða brostinna drauma. Óvíða má finna fleiri heimilislaus einstaklinga og í borginni þar sem allt er hannað fyrir bíla eru götuljós í hverfum nánast engin í mannlausum skúmaskotum.

Safn dauðans í Barbíbænum

Þó má finna sér ýmislegt skemmtilegt til dundurs og fræðgast jafnvel um hina myrku menningarkima borgarinnar á grafískan hátt. Í gróskumiklu menningarlífi má nenfilega finna ýmis áhugaverð söfn í borginni en aðeins eitt þeirra heillaði mig svo mikið að ég vandi komur mínar þangað þegar ég var þarna búsett. Því líkt og margir samlandar mínir og íbúar Los Angeles laðast ég stundum að því sem vekur óhugnað.  Safn Dauðans eða Museum of Death er það kallað, óhuggulega safnið sem stendur við Hollywood Boulevard, sömu götu og útgubbaða frægðargatan með gylltu stjörnunum. Framhlið hússins er skreytt með rósum og hauskúpum en hlið þess var fyrst opnað fyrir gestum 1995 í San Diego en það flutti yfir í glamúrborgina árið 1999 og hefur verið vel sótt síðan. Stofnendur safnsins voru þau J. D. Healy and Catherine Shultz en yfirlýst markmið þeirra með var að gera samlanda sína og gesti safnsins  fegin og jafnvel glöð yfir því að vera svo lánsöm að vera á lífi. Það voru þær Sharon Tate og Elizabeth Short líklega líka þegar þær komu til borgarinnar.

Manson gengið fer á stjá

Að kvöldi 8. Ágúst 1969 var  Sharon Tate heima hjá sér, kasólétt með barn þeirra Polanskis, í lúxusíbúð þeirra í Benedict Canyon í Los Angeles með vini sína í heimsókn. Þrír meðlimir hins alræmda Manson gengis brutust inn á heimilið og myrtu alla viðstadda í húsinu, þeirra á meðal Tate og ófætt barn hennar. Það var hinn ódæli Charles Milles Manson sem fór fyrir óhuggulegum hópi ódæðismanna sem var sakfelldur fyrir að fyrirskipa morðin. Á veggjum dauðasafnsins er þessa atburðar minnst en þar má sjá grafískar blóðugar myndir af vettvangi Manson morðanna, af illa útleiknum líkum Sharon Tate og fleiri, í sérstöku herbergi sem er tileinkað morðum hans. Annarsstaðar á safninu eru ýmsir aðrir minnisvarðar um skelfileg grimmdarverk, fleiri ljósmyndir, uppstoppuð dýr, fóstur af mannabörnum og líkkistur. 

Þar eru líka upprunalegu kojurnar sem fórnarlömbin í hinum svokölluðu Heaven’s gate fjöldasjálfsmorðum sváfu í á meðan þau dreyptu á baneitruðu kool aid, trúðaskórnir sem raðmorðinginn John Wayne Gacy klæddist þegar hann murkaði lífið úr ungum drengjum. Einnig er þar heilt herbergi tileinkað morðinu á hinni hrokkinhærðu svörtu Dalíu.

Árlega óhuggulega búningakeppnin

Tæpri viku eftir hvarf Elísabetar fannst líkið illa leikið og var andlit hinnar brosmildu ungu konu meðal annars skorið upp frá munnvikum upp að eyrum og myndaði þannig satanískt bros. Mál hennar vakti mikinn óhug en var aldrei upplýst en hún var í umfjöllun um morðið jafnan kölluð Svarta Dalían. Minning hennar og minningin um ódæðisverkið sem framið var er sérstaklega heiðruð einu sinni á ári í Safni dauðans og gestir hvattir til að mæta í búningum klædd upp sem Elísabet Short en með helming andlitsins í gervi hinnar fögru leikkonu í lifanda lífi og helming þess sem hún sem sundurskorið rotnandi lík. Svo er fagnað innan um ljósmyndirnar, kojurnar, uppstoppuðu dýrin, fóstrin, morðvopn og trúðaskónna. Því er fagnað að allir þeir sem hafa tök á að koma þar saman geta prísað sig sæl að vera á lífi, að hafa ekki lent í því sem leynst getur í grimmilegu myrkri stórborgar.

Morðsögur milda lægðir og heimsendi

Íslenski veturinn hefur verið óvægnari og stormasamari í ár en svo langt aftur sem menn muna. Flestir fara út í daginn í niðamyrkri, yfirgefa vinnustaðinn ekki fyrr en svartnættið er skollið á og upp á síðkastið hefur jafnvel verið erfitt að komast á milli húsa því litrófið gulur og rauður vekur upp hugrenningatengsl við ofsaveður og marglitar viðvaranir. Miskunnarlaus snjórinn ryður burt snjóflóðavörnum svo drynur um Vesturland á meðan að Ástralía brennur hinum megin á hnettinum, fólk og dýr týna lífum og heimkynnum í óslökkvandi vítiseldi á meðan hver fregnin berst á fætur annarri um að tímaglas mannkyns sé að tæmast, sandkorn fyrir sandkorn með mjúku en ærandi suði. Þrátt fyrir að myrkrið minni svo sterkt á sig er rík tilhneiging í landsmönnum til að kafa dýpra inn í óhugnaðinn á þessum árstíma. Þjóðin sameinast við skjáinn á sunnudagskvöldum að fylgjast með lögreglufólki í Broti þreifa fyrir sér í eilífu rökkri með vasaljós vísar þeim á morðingja, beinagrindur og blóðug lík. Skríður svo kannski undir sæng með nýjasta hrollvekjandi krimma Yrsu eða Arnaldar. Við, líkt og gestir dauðasafnsins njótum þess þrátt fyrir allt að finna spennuna í óhugnaðinum.

Ef þið eigið leið til LA í huganum eða í líkama í leit að glingri, frægð og frama, prjáli, Pradaskóm og rauðum dreglum, eða bara til að prófa sólbað að vetri til. með einlægri ósk um að örlög ykkar verði ekkert í líkingu við Svörtu Dalíunnar eða Sharon Tate mæli ég með því að þið heimsækið myrku kima borgarinnar vopnuð góðu vasaljósi og kíkið á dauðasafnið. Þakkið svo fyrir að vera, að minnsta kosti ennþá, á lífi.

Tengdar fréttir

Pistlar

Límonaði úr sítrónum lífsins

Pistlar

Að dreyma hest með vængi og sólgleraugu

Pistlar

Borg sem er stjórnað af köttum