Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Morales lýstur sigurvegari í Bólivíu

25.10.2019 - 00:52
epa07947170 Bolivian President Evo Morales participates during a rally with supporters, in Cochabamba, Bolivia, 24 October 2019. Morales said that he will go to the runoff if he fails to win outright in the first round, although he hopes that the final count will give him the victory without waiting for another election round. The president's statements come after the Organization of American States (OAS) urged a second round no matter what happens with the count of the first, to clear suspicions of electoral fraud.  EPA-EFE/JORGE ABREGO
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Kjörstjórn í Bólivíu lýsti Evo Morales sigurvegara forsetakosninganna í landinu. Samkvæmt vefsíðu kjörstjórnar hlaut Morales rétt rúmlega 47 prósent atkvæða, en helsti andstæðingur hans Carlos Mesa, hlaut 36,5 prósent. Mesa varð að vera innan við tíu prósentustigum frá Morales til að ná að knýja fram aðra umferð.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum, Brasilíu, Argentínu og Kólumbíu þrýsta þrátt fyrir það á aðra umferð, þar sem úrslitin eru mjög umdeild. Einungis þannig verði hægt að endurreisa trúverðugleika lýðræðisins í landinu. Áður hafði kosningaeftirlitsnefnd frá samtökum Ameríkuríkja lýst áhyggjum sínum yfir talningu atkvæða. Þegar búið var að telja 84 prósent atkvæða munaði aðeins sjö prósentustigum á Morales forseta og Mesa. Þá tók við margra klukkustunda bið eftir næstu tölum, og var Morales þá kominn með yfir tíu prósentustiga forskot. Þetta vakti mikla reiði og brutust út mótmæli og óeirðir víða í landinu.

Samkvæmt niðurstöðu kjörstjórnar á Morales að sitja sitt fjórða kjörtímabil sem forseti. Ef ekkert verður gert er ljóst að Morales verður undir miklum þrýstingi. Morales sótti eftir sérstöku leyfi stjórnlagadómstóls um að fá að bjóða sig fram fjórða sinni, þrátt fyrir að landsmenn hafi hafnað þeirri hugmynd hans í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann hefur verið við stjórnvölinn síðustu 13 ár, og varð fyrsti forseti landsins af ættum frumbyggja. Vinsældir hans hafa dvínað undanfarin ár vegna ásakana um spillingu og einræðistilburði.