Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Morales lætur ekki undan kröfum andstæðinga

27.10.2019 - 05:11
epaselect epa07949982 A demonstrator rests in a bed that blocks a street during a protest held due to alleged fraud in the recent general elections, in Santa Cruz de la Sierra, Bolivia, 25 October 2019. Bolivians around the country took the street to protest alleged fraud in the 20 October general elections, in which incumbent president Evo Morales won a fourth term in office. The sign at the end of the protestor's bed reads: 'Let's go to the second round.'  EPA-EFE/JUAN CARLOS TORREJON
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Evo Morales, forseti Bólivíu, segist ekki ætla í neinar pólitískar viðræður um niðurstöðu forsetakosninganna um síðustu helgi. Fjölmenn og hörð mótmæli hafa verið í landinu eftir umdeilda niðurstöðu kosninganna.

Morales var úrskurðaður sigurvegari forsetakosninganna, með yfir tíu prósentustiga forskot á helsta keppinnaut sinn Carlos Mesa. Um sjö prósentum munaði á þeim þegar búið var að telja 84% atkvæða, en samkvæmt lokatölum hlaut Morales rúm 47% en Mesa 36,5%.

Mesa, sem nýtur stuðnings miðju- og hægriflokka í Bólivíu, sagði á föstudag að hann hafni niðurstöðu kosninganna. Hann kallaði jafnframt eftir því að stuðningsmenn hans haldi mótmælum áfram.

Morales sagði í ræðu í gær að hann ætli ekki í pólitískar viðræður vegna niðurstöðu kosninganna. Stjórnarskrá Bólivíu verði virt. Hann hvatti þá sem saka hann um svindl að birta sannanir þess efnis. „Við höfum ekkert að fela, við erum ekki að ljúga," sagði Morales. Fyrr í gær sagði hann að ef um kosningasvik hafi verið að ræða verði boðað til seinni umferðar forsetakosninga strax daginn eftir.