Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mokfiskerí skilar mettekjum á Snæfellsnesi

20.05.2019 - 21:15
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Tekjur Snæfellsbæjar hafa aldrei verið hærri en það sem af er þessu ári. Ástæðan er fyrst og fremst mokfiskerí á svæðinu. Bæjarstjórinn segir að þetta skili bættri þjónustu og minni lántöku.

Heildarafli íslenskra fiskiskipa dróst saman um 23% í apríl, samanborið við sama mánuð í fyrra. Þessa samdráttar gætir hins vegar ekki á Snæfellsnesi, þar sem vertíðin hefur verið einstaklega góð. Það var enda létt yfir skipverjum á Ólafi Bjarnasyni SH þegar þeir lönduðu í Ólafsvík á þriðjudaginn.

„Við tókum eitt hal. Þetta eru rúmlega 20 tonn af ýsu og eitthvað á annað tonn af þorski,“ segir Magnús Jónsson skipstjóri.

Hefur þetta verið svona í allan vetur?

„Þetta er búið að vera nokkuð gott eftir páskana. Verið mikið fiskerí.“

Góð vertíð?

„Já það má eiginlega segja það.“

„Frá áramótum eru komin um 21.000 tonn af bolfiski á land,“ segir Björn Arnaldsson, hafnarstjóri í Snæfellsbæ.

Er það gott?

„Já það er mjög gott. Betra en í fyrra. Við vorum með 19.000 tonn á sama tíma í fyrra. Og verðið er mun hærra núna í vetur en í fyrra.“

Þorskur og ýsa

Nú er mjög góð vertíð hérna - hvaða áhrif hefur það á bæjarsjóðinn?

„Það hefur mjög góð áhrif,“ segir Kristinn Jónasson, bæjarstjóri. „Við höfum aldrei fengið svona miklar tekjur eins og á þessu ári. Og stærsti mánuður sem við höfum fengið var síðasti mánuður þar sem við fórum í fyrsta skipti yfir 100 milljónir í útsvarstekjur sem þykir mikið hjá okkur.“

„Það er búið að fiskast vel í öll veiðarfæri. Alveg sama hvort það sé dragnót, línu eða þorskanet. Og svo byrjar strandveiðin vel,“ segir Björn.

Hvað er mest að koma í land?

„Langmest af þorski. Og svo ýsa.“

Er ekki ánægja á skipinu þegar það gengur vel?

„Jú það er það,“ segir Magnús. „En það styttist þá bara í sumarfríið. Við klárum þetta fljótlega eftir mánaðarmótin ef þetta heldur svona áfram.“

Já þið klárið bara kvótann?

„Já.“

Hvað gerið þið við þessar auknu tekjur?

„Við erum auðvitað í þjónustu við íbúana,“ segir Kristinn. „Sem þýðir að við getum veitt betri þjónustu og við þurfum að taka minni lán. Við gerðum ráð fyrir að taka lán á árinu en líklega verður lántakan ekki eins mikil vegna þess að tekjustreymið er miklu meira en við áttum von á.“

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV