Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Móðurmálskennsla mikilvæg fyrir tvítyngda

13.04.2014 - 19:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Prófessor við HÍ segir að góður málþroski í móðurmáli sé undirstaða læsis og því er mikilvægt að þau börn sem hingað koma og læri íslensku sem annað mál fái kennslu í móðurmálinu.

Börnum í íslenskum skólum er mismunað. Börn sem flytjast hingað til lands frá Noregi, Svíþjóð eða Póllandi geta lært móðurmál sín í stað dönsku en börn sem koma annars staðar frá eiga ekki þennan rétt. Cheila Vanessa Santos vissi þetta ekki þegar hún óskaði eftir því að fá að læra portúgölsku í stað dönsku eins og norskir og pólskir félagar hennar. Henni var synjað um það. Hún kom hingað sex ára og hefur ekki fengið kennslu í portúgölsku fyrr en núna í janúar. Mjög mikilvægt er fyrir barn sem er að læra nýtt tungumál að viðhalda móðurmáli sínu.

Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum við Háskóla Íslands, segir fræðimenn sammála um að góður málþroski í móðurmáli sé undirstaða læsis og þess að börn geti lært að lesa sér til gagns og gamans. 

Fái barnið ekki tækifæri til að viðhalda móðurmálinu getur það haft áhrif á vitsmunaþroska þess. Víða erlendis, eins og í Bandaríkjunum, er lögð áhersla á það sem kallað er tvítyngiskennsla og á Norðurlöndunum er börnum af erlendum uppruna úthlutað tímum í hverri viku til móðurmálskennslu. „Ég tel mjög mikilvægt að börn sem hingað koma fái móðurmálskennslu vegna þess að við vitum það að með því þá aukast möguleikar þeirra til náms.“

Dæmi eru um að börnum af erlendum uppruna sé bannað að tala saman á móðurmáli sínu í skólum hér á landi og bannað að koma með bækur á móðurmálinu í frjálsa tíma í skólanum. Sömuleiðis hefur þetta átt sér stað í leikskólum. Fréttirnar komu Birnu mjög á óvart. 

„Hins vegar, svo sannarlega, verðum við að auka þekkingu þeirra sem tala svona þannig að þeir átti sig á því að þetta borgar sig ekki fyrir neinn. Þetta er ekki gott fyrir barnið og þetta er ekki gott fyrir skólann.“