Móðir Hildar: „Þetta er eins og trylltur draumur“

Mynd: Skjáskot / RÚV

Móðir Hildar: „Þetta er eins og trylltur draumur“

09.02.2020 - 21:06

Höfundar

Ingveldur G. Ólafsdóttir, móðir Hildar Guðnadóttur, verður dóttur sinni til halds og trausts á rauða dreglinum í kvöld. Síðan rennur stóra stundin upp í Dolby-höllinni í Los Angeles í kvöld en þá kemur í ljós hvort Hildur verði fyrsti Íslendingurinn til að hljóta Óskarsverðlaun. Hún er tilnefnd fyrir tónlistina í kvikmyndinni Joker. Ingveldur segir velgengni Hildar síðustu mánuði hafa verið eins og trylltan draum. „Stundum er maður ekki viss um hvort mann sé að dreyma eða ekki.“

Það er í mörg horn að líta og margar veislur að sækja þegar Óskarsverðlaunin eru annars vegar. Ingveldur deildi í dag myndum af því þegar þær mæðgur undirbjuggu sig fyrir Chanel-partý. „Hildur gæti verið í endalausum partýum en hún velur úr. Hún er auk þess skynsöm stúlkan mín og drekkur ekki áfengi. Fólk í þessari stöðu þarf á allri sinni orku að halda til þess að komast í gegnum þetta.

Ingveldur settist niður með Önnu Marsibil Clausen sem er stödd í Los Angeles á vegum RÚV og ræddi aðeins um velgengni dóttur sinnar. Hildur hefur sjálf lýst því hvernig móðir hennar seldi bílinn sinn til að geta keypt handa henni fyrsta sellóið. „Hildur hefur frá fyrsta degi verið alveg einstök manneskja. Það segja það auðvitað allir um börnin sín en hún var það sannarlega.“ 

Ingveldur er lærð söngkona og faðir Hildar er Guðni Franzon tónlistarmaður. Því var tónlistin stór hluti af lífi hennar í æsku. „Hún þurfti að fara með okkur í tíma og hlusta á æfingar. Hún var alltaf þægilegt og elskulegt barn, aldrei neitt vesen og mjög glaðlynd. Það var hægt að fara með hana á tónleika, út að borða. Við tókum hana alltaf með okkur hvert sem við fórum.“ 

Ingveldur segir að það hafi ekki verið skrifað í skýin að Hildur yrði tónlistarmaður. Hún hafi verið mikil tungumálamanneskja og verið búin að læra hollensku, ensku og íslensku fyrir fjögurra ára aldur. Þá hafi stærðfræðin alltaf legið vel fyrir henni.  „Þegar hún útskrifaðist sem stúdent þá ráðlagði ég henni að hún skyldi gera það sem hjarta hennar stæði til. Það væru margir læknar og lögfræðingar en það væri hennar innsta köllun sem myndi veita henni mesta velgengni andlega.“

Og köllunin reyndist vera tónlist. Hildur vann náið með Jóhanni Jóhannssyni og spilaði meðal annars á selló í tónverkinu sem hann samdi fyrir Sicario, mynd sem hann var síðar tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir.   Ingveldur segist hafa skynjað það eftir að Hildur samdi tónlistina við Sicario: Day of the Soldado að hún væri komin á einhverja braut. Þetta hafi verið erfitt verk, ekki síst vegna samstarfs hennar og Jóhanns í fyrri myndinni. „Hún er mjög þolinmóð, vinnusöm og einbeitt á það sem hún er að gera. Í sjálfu sér kemur þessi velgengni því ekki á óvart. Hún hefur alltaf verið svo trú sínu og aldrei verið gjörn á að elta tiskustrauma.“

Velgengni Hildar hefur vakið mikla athygli, ekki bara á Íslandi en hún prýddi meðal annars forsíðu hins virta kvikmyndatímarits Variety. Hún hefur unnið  Emmy, Grammy, Golden Globe og Bafta og í nótt gæti Óskarinn bæst í verðlaunasafnið. Og allir helstu sérfræðingar spá henni sigri. „Þetta er dálítið eins og trylltur draumur,“ viðurkennir Ingveldur. „ Þetta er búið að vera  mikið, hún er búin að fá öll verðlaun og nú er bara spurning um Óskarinn. Stundum er maður ekki viss um hvort mann sé að dreyma eða ekki.“

En það eru ekki bara öll verðlaunin sem hafa fangað athygli umheimsins. Hún var til að mynda í hópi best klæddu kvennanna á Bafta-verðlaunahátíðinni ásamt Katrínu Middleton, eiginkonu Vilhjálms prins. „Hildur hefur alltaf verið tískudrós,“ segir Ingveldur og skellir upp úr. „Hún er meðvituð um fatnað og vildi sem barn aldrei vera í buxum heldur alltaf í kjólum eða pilsum.“ Hún hafi þannig orðið fyrir einelti vegna klæðaburðarins hér á landi þegar allir voru í dúnúlpu og joggingfötum. „En hún hélt alltaf sínu striki.“ 

Bein útsending frá rauða dreglinum hefst á RÚV klukkan tólf á miðnætti. Athöfnin sjálf hefst svo klukkan 01.

epa08188414 Hildur Gudnadottir attends the 73rd annual British Academy Film Award at the Royal Albert Hall in London, Britain, 02 February 2020. The ceremony is hosted by the British Academy of Film and Television Arts (BAFTA).  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA - RÚV
Klæðnaður Hildar á Bafta-verðlaunahátíðinni vakti mikla athygli