MMR: Viðreisn með þriðja mesta fylgið

27.09.2016 - 11:52
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson - RÚV
Viðreisn mælist með 12,3% fylgi í nýrri könnun MMR. Þetta er mesta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með hjá fyrirtækinu. Flokkurinn er með þriðja mesta fylgi allra flokka, þó að munurinn á þeim flokki og næstu tveimur á eftir sé innan vikmarka.

Samkvæmt könnuninni mælast Píratar með 21,6% fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn með 20,6% fylgi.  Fylgi þeirra beggja dalar frá síðustu könnun en þetta er minnsta fylgi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur mælst með hjá MMR frá því fyrirtækið hóf að mæla fylgi stjórnmálaflokkanna í október 2008. 

Viðreisn mældist með 12,3% fylgi sem mesta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með hingað til og er til að mynda 3,5 prósentustigum hærra en í könnun sem lauk 29. ágúst síðastliðinn.

Fylgi Framsóknar mældist 12,2% nú, borið saman við 10,6% í könnun sem lauk 29. ágúst. Fylgi Vinstri-grænna mældist 11,5% nú, borið saman við 12,4% í könnun sem lauk 29. ágúst. Samfylkingin mældist með 9,3% fylgi og mældist með 9,1% fylgi í könnun sem lauk 29. ágúst. Björt framtíð mældist með 4,9% fylgi, sem er hæsta mæling síðan í könnun sem lauk 20. maí á þessu ári, en flokkurinn mældist með 4,5% fylgi í könnun sem lauk þann 29. ágúst.

Íslenska þjóðfylkingin mælist með 2,3% fylgi og Dögun með 2,1%. Önnur framboð eru undir einu prósenti.

Stuðningur við ríkisstjórnina mældist 31,5%, sem er lægsta mæling síðan í apríl, þegar stuðningur við ríkisstjórnina mældist 26%. Stuðningur við ríkisstjórnina mældist 34,5% í síðustu könnun sem lauk 19. september og 35,6% í könnun sem lauk 29. ágúst.

 

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi