Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mjúka rappið

Mynd með færslu
 Mynd:

Mjúka rappið

01.03.2019 - 13:18

Höfundar

Flóni 2 er önnur plata Flóna og fylgir í kjölfarið á fyrstu plötunni, sem kom út síðla árs 2017. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið sem er plata vikunnar á Rás 2.

Flóni nýtur mikilla vinsælda hjá ungviðinu í dag, skellir upp tónleikum sem selst upp á, dælir út myndböndum og er stór hluti af tónlistarrófi unga fólksins, sem streymir lagaspottum í gríð og erg eða pikkar upp hluti á þjónvarpinu (voðalega er maður orðinn gamall eitthvað...). Flóni gaf út sína fyrstu plötu seint á síðasta ári, samnefnda honum, og þar voru lög eins og „Leika“ og „Tala saman“ vinsæl. Einnig urðu frístandandi lög eins og „OMG“ (ásamt Birni og Joey Christ) og „Lætur mig“, sem GDRN á en Flóni ljær bakrödd, umtöluð. Platan nýja er unnin með tilstilli hljóðfæraleikara að einhverju leyti en hingað til hefur Flóni unnið sitt efni í tölvu. Hann lýsti því í viðtali við visir.is að á meðal samstarfsmanna séu Magnús Jóhann Ragnarsson og Arnar Ingi Ingason sem er betur þekktur sem Young Nazareth.

 

Silkimjúkt

Vinsældir Flóna má útskýra á einfaldan hátt. Hann er sjarmerandi og hefur útgeislun. Tónlistarlega situr hann í mýktinni, er í raun hluti þeirrar kreðsu sem er að færa íslenskt hipphopp nær r og b-i. Á Flóna 2 er að finna silkimjúkan hljóðheim ofan á angistarfulla textagerð. Það er helst í textum, illu heilli, sem Flóni er fálmandi, ódýrt rím og setningar þannig upp settar, að það er eins og hann hafi verið að semja þær á staðnum. Þessi þáttur hefði vel þolað meiri yfirlegu. Áhrifa frá Aroni Can gætir á mörgum stöðum, ekki bara vegna svefnherbergisáherslnanna í yrkisefnum (sungið um þrár og langanir í garð hins kynsins, líkt og GDRN gerir á sinni plötu en með meiri reisn) heldur líka vegna raddbeitingar. Aron og Flóni eru svalir, það er aldrei ofsi eða læti í rappinu þeirra heldur hvísla þeir, líkt og þeir tali í svefndrunga. Hrynjandin er letileg, sérhljóðin dregin út og rappið lágvært og letilegt. Hljóðmottur og taktar eru til fyrirmyndar, falla vel að flæðinu og undir restina er hent í smá teknópartí, „Frá mér“. Flóni 2 er fínasta eftirfylgni við frumburðinn og treystir okkar mann enn frekar í sessi sem helsta rappara samtímans á Íslandi.