Flóni nýtur mikilla vinsælda hjá ungviðinu í dag, skellir upp tónleikum sem selst upp á, dælir út myndböndum og er stór hluti af tónlistarrófi unga fólksins, sem streymir lagaspottum í gríð og erg eða pikkar upp hluti á þjónvarpinu (voðalega er maður orðinn gamall eitthvað...). Flóni gaf út sína fyrstu plötu seint á síðasta ári, samnefnda honum, og þar voru lög eins og „Leika“ og „Tala saman“ vinsæl. Einnig urðu frístandandi lög eins og „OMG“ (ásamt Birni og Joey Christ) og „Lætur mig“, sem GDRN á en Flóni ljær bakrödd, umtöluð. Platan nýja er unnin með tilstilli hljóðfæraleikara að einhverju leyti en hingað til hefur Flóni unnið sitt efni í tölvu. Hann lýsti því í viðtali við visir.is að á meðal samstarfsmanna séu Magnús Jóhann Ragnarsson og Arnar Ingi Ingason sem er betur þekktur sem Young Nazareth.