Fjarskiptasamband liggur niðri í Mjóafirði á Austurlandi, þar virka hvorki símar né nettengingar. Eina tenging Mjófirðinga núna er við Vaktstöð siglinga í gegnum bátatalstöð. Fjarskiptasamband til Mjóafjarðar rofnar reglulega og í vetur kom fram í fréttum að Neyðarlínan hyggst koma þangað ljósleiðara til að tryggja net- og símasamband á svæðinu.