Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Mjög stór dagur í sögu náttúruverndar“

05.07.2019 - 19:46
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra segir mikilvægt skref hafa verið stigið í umhverfisvernd á Íslandi með því að fá Vatnajökulsþjóðgarð skráðan á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO.

Vatnajökulsþjóðgarður spannar rúmlega fjórtán prósent af flatarmáli Íslands og er meðal stærstu þjóðgarða í Evrópu. Garðurinn nær yfir allan Vatnajökul og stór svæði vestan hans og norðan, niður Jökulsárgljúfur og í Ásbyrgi. Þjóðgarðurinn var stofnaður árið 2008. Ekki er þó allur garðurinn innan skráningar UNESCO. Jökulsárgljúfur og svæðið umhverfis Ásbyrgi uppfyllir ekki skilyrði og er þess vegna ekki með. Til að breyta því þarf að friðlýsa alla Jökulsá á Fjöllum.

„Þetta er gríðarleg viðurkenning fyrir náttúru svæðisins, stjórnarfyrirkomulag þjóðgarðsins og þann rekstur sem á þar stað,“ segir Guðmundur Ingi. „Og fyrir náttúru Íslands að 12 prósent landinu sé núna hluti af heimsminjaskrá menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna er stórafrek og eitthvað sem við getum öll verið stolt af. Þetta er mjög stór dagur í sögu náttúruverndar og ég vil meina í sögu lýðveldisins Íslands.“

Ríflega þúsund staðir á heimsminjaskrá

Heimsminjaskrá UNESCO er haldin um þá staði á jörðinni sem eru sérstaklega merkilegir í menningarlegu og náttúrufræðilegu tilliti, og eru taldir vera hluti af menningararfi mannkyns. Ríflega þúsund staðir hafa verið skráðir síðan skráin var stofnuð árið 1972.

Tveir staðir á Íslandi voru þegar á heimsminjaskránni. Þingvellir síðan 2004 vegna menningararfleifðar fyrir íslenska þjóð; þar sem eitt elsta þjóðþing í heimi var stofnað árið 930. Surtsey síðan 2008, en hún þykir einstök í jarðfræðilegu tilliti, enda hefur umferð fólks um eyjuna verið stýrt síðan Surtseyjargosinu lauk árið 1967.

UNESCO leit til margra þátta við mat á umsókninni fyrir Vatnajökulsþjóðgarð. „Það er í rauninni verið að horfa á þessa jarðfræðilegu heild, það er verið að horfa á áhrif rekbeltisins og það verið að horfa á heita reitinn undir Íslandi. Það er verið að horfa á þær fjölbreyttu jarðminjar og jarðmyndanir sem þarna eru,“ segir Guðmundur Ingi.

„Og svo eru auðvitað gríðarleg tækifæri sem felast í þessu fyrir alla þá sem eru í jaðri þjóðgarðsins og hafa atvinnu með einum eða öðrum hætti á því að gera út á þjóðgarðinn. Því við þekkjum það að þegar við ferðumst sjálf erlendis og sjáum að eitthvað er á heimsminjaskrá UNESCO þá vitum við að það er til marks um að þar er eitthvað afskaplega merkilegt á ferðinni og oftar en ekki gerir maður lykkju á leið sína til þess að skoða slíkt. Allavega er ég þannig,“ segir Guðmundur Ingi.