
Mjög ölvaður maður ók á ferðamenn í Borgarnesi
Sigurður segir að maðurinn hafi á leið sinni inn á bílastæðið ekið niður ljósastaur og einnig á steinkant sem brotnaði. Jeppinn er óökufær á eftir. Ökumaðurinn slapp ómeiddur. Brúartorg er einn helsti viðkomustaður ferðamanna á leið um Vesturlandsveg. Við það stendur meðal annars N1-stöðin sem áður hét Hyrnan.
„Fólki var mjög brugðið – þetta leit ekki vel út og hefði getað farið mjög illa,“ segir Sigurður. Hann segist ekki vita hversu tæpt hafi staðið með aðra vegfarendur, en hins vegar hafi verið þó nokkur vitni að atvikinu og sum þeirra hafi hlúð að þeim slösuðu á vettvangi. Sigurður segir að ekki liggi heldur fyrir hversu langt maðurinn hafði keyrt í þessu ástandi fyrir slysið. Hann er á miðjum aldri, var einn í bílnum og augljóslega mjög ölvaður, að sögn Sigurðar.
Maðurinn var ekki í ástandi til að hægt væri að yfirheyra hann en honum var engu að síður sleppt úr haldi þegar málsatvik þóttu liggja ljós fyrir. Sigurður segir að hann verði kallaður til skýrslutöku þegar runnið verður af honum. Ferðamennirnir héldu sína leið eftir heimsóknina á heilsugæsluna.