Missti föður og tvíburabróður á jóladag

Mynd:  / 

Missti föður og tvíburabróður á jóladag

03.02.2019 - 15:27

Höfundar

Á Flókastöðum í Fljótshlíð býr Sigmundur Vigfússon, bóndi og einsetumaður. Sigmundur og Karl tvíburabróðir hans bjuggu þar saman í áratugi þar til Karl féll frá. Sigmundur er gestur í Paradísarheimt sem er á dagskrá RÚV klukkan 20:25 í kvöld.

Sigmundur þvertekur fyrir það að leiðast þó að hann búi einn en viðurkennir þó að sakna stundum tvíburabróðurins og fjölskyldunnar. „Jú. En þetta gengur yfir og það verður að halda áfram bara, láta ekki svona taka á sig,“ segir hann hvergi banginn. Andlát tvíburabróðurins Karls bar brátt að, en hann andaðist úti í hlöðu á Flókastöðum. „Já bara allt í einu, bara bráðkvaddur. Sat á heybagga. Þetta var á jóladag. Það voru mikil viðbrigði,“ segir Sigmundur.

En það er ekki eini náni ættinginn sem Sigurður hefur misst á þeim degi sem í hugum flestra tengist gleði og hátíðarhöldum. „Pabbi sat hérna inni í sófanum. Elsti bróðir minn var að tala við hann. Þá sat hann hérna og svo allt í einu dó hann. Hef ekki hugmynd af hverju. Þetta var á jóladag, langt síðan.“ En þrátt fyrir mótlætið lætur Sigmundur ekki buga sig og horfir fram á veginn. „Þetta eru mikil viðbrigði að missa samferðafélagana okkar. Gífurleg viðbrigði. En lífið heldur áfram, það þýðir ekkert að gefast upp.“

Rætt er við Sigmund Vigfússon í Paradísarheimt sem er á dagskrá RÚV í kvöld klukkan 20:25. Hægt er að horfa á eldri þætti í Spilaranum

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Ekki skáld, bara dópisti og rugludallur?

Mannlíf

„Snertir okkur ekki að vera kölluð nasistar“

Menningarefni

„Vorum í sömu helvítis fötunum mánuðum saman“

Menningarefni

„Henni fannst ég myndarlegur“