„Missir ekki mannréttindi við áfengisneyslu“

23.02.2016 - 16:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar, félags um málefni kvenna með áfengis-og fíknivanda, segir að svör sem borist hafa frá Neyðarlínunni stangist á við upplýsingar sem samtökin hafa fengið frá aðstandendum konu, sem varð nærri úti vegna rangrar greiningar og samskiptaleysis milli lögreglu og Neyðarlínunnar aðfaranótt 14. febrúar.

Lá úti í tæpar sex klukkustundir

Guðfinna Gróa Pétursdóttir var á leið heim til sín þá um nóttina þegar hún datt í hálku og rotaðist. Þegar hún rankaði við sér, tveimur og hálfum tíma seinna hringdi hún á Neyðarlínuna, 112, eftir hjálp. Hún var verulega vönkuð og átti erfitt með að athafna sig vegna kulda. Í fjórðu tilraun náði hún að segja starfsmanni Neyðarlínunnar hvar hún var, hvað hún héti og að hún kæmist ekki inn, gæti sig ekki hreyft. 

Starfsmaður Neyðarlínunnar mat það sem svo að málið væri lögregluverkefni og gaf símtalið áfram til lögreglu. Í því símtali gat Guðfinna varla tjáð sig og það fer svo að símtalið slitnar. Þremur klukkustundum síðar finnur nágranni Guðfinnu hana úti í snjónum. Hún var þá mjög hætt komin, hitastig hennar var komið í 20° og hún var meðvitundarlaus. 

Mynd: Skjáskot / RÚV

Leituðu svara hjá Neyðarlínunni

Rótin, félag um málefni kvenna með áfengis-og fíknivanda, sendi bréf til Neyðarlínunnar til að fá svör við því hvað hafi valdið því að Guðfinna fékk ekki aðstoð senda. Sérstaklega var spurt hvort það hafi haft áhrif að konan hafi svarað játandi spurningu um hvort hún hefði drukkið.

Í svari frá Þórhalli Ólafssyni, framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar, til Rótarinnar segir hann að ekkert samhengi sé milli þess að Guðfinna hafi verið búin að fá sér áfengi og að málinu hafi verið vísað til lögreglu. „Stundum er sendur sjúkrabíll, stundum er málinu vísað til lögreglu. Það er skylda neyðarvarðar að fá sem gleggstar upplýsingar af staðnum. Þegar um rökstuddan grun er að ræða er spurt að því hvort viðkomandi sé undir áhrifum. Þær upplýsingar nýtast viðbragðsaðilum. Í þessu tilviki var beðið um aðstoð við að komast inn í íbúðina. Það er lögregluverk, ekki sjúkraflutningamanna."

Guðfinna hafi sagst vera með lykla

Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar, segir að svörin stangist á við upplýsingar sem samtökin hafi fengið frá aðstandendum Guðfinnu. „Mér skildist að hún hafi verið búin að segja að hún væri með lykla. Þarna eru einhverjar misvísandi upplýsingar. [...] Þetta útskýrir ekki af hverju erindið var flutt til lögreglu. Getur verið að eðlilegt sé að spyrja um hvort viðkomandi sé undir áhrifum? Þetta vakti spurningar um hvort að mannréttindi fólks, sem er drukkið, séu skert. Hver er þá tilgangurinn með því að fá þessar upplýsingar? Það er ýmislegt í þessu máli sem manni finnst benda til þess að fordómar stjórni viðbrögðum."

Kristín segir að Rótin ætli sér að halda áfram með málið og leita svara hjá lögreglu.  „Þú missir ekki mannréttindi við að fá þér í glas. Það er löglegt að drekka á Íslandi og engin takmörk á því. Hvar kemur þetta atriði inn í þetta mat? Við höfum áhuga á að vita það," segir Kristín. 

Kristín segir að annað fréttamál frá sömu helgi hafa vakið athygli Rótarinnar. Þá hafi verið sagt frá því að dauðadrukkin kona hefði verið vistuð í fangaklefa. „Af hverju er verið að loka meðvitundarlaust fólk inni í fangaklefa þar sem það ógnar engum? Þetta eru gamlar reglur sem þarf að endurskoða."

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi