Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Misrétti og vatnsskortur í nýfrjálsri Namibíu

16.11.2019 - 16:36
Mynd: - / wikipedia.org
Lífslíkur í Namibíu eru með þeim minnstu í heiminum. Þjóðarmorðin í Namibíu er sögð fyrirmynd Helfarar nasista í seinni heimstyrjöldinni og aðskilnaðarstefna Suður-Afríku lék landið grátt. Namibía fékk sjálfstæði árið 1990 og er enn að slíta barnsskónum sem þjóð meðal þjóða.

Namibía er í suðvestanverðri Afríku með landamæri að Zambíu og Angóla í norðri, Botswana í austri og Suður-Afríku í suðri. Namibía hlaut sjálfstæði frá Suður-Afríku 21. mars 1990 eftir sjálfstæðisstríðið. Í landinu búa tvær komma sjö milljónir, þar af um þrjú hundruð og þrjátíu þúsund í höfuðborginni Windhoek. Namibía er í Sameinuðu þjóðunum, Þróunarbandalagi sunnarnverðrar Afríku, Einingarsamtökum Afríku og Breska samveldinu.

epa07820544 President of Namibia Hage Geingob attends a plenary session of the World Economic Forum on Africa (WEF) titled Africa: Rising Continent in a Fractured World at the Cape Town International Convention Centre, in Cape Town, South Africa, 05 September 2019. The World Economic Forum on Africa runs from 04 to 06 September 2019.  EPA-EFE/NIC BOTHMA
Hage Geingob, forseti Namibíu. Mynd: NIC BOTHMA - EPA
Hage Geingob, forseti Namibíu

Vatnsskortur er landlægur í Namibíu sem er þurrasta land Afríku, sunnan Sahara eyðimerkurinnar. Öldum saman bjó þar San-, Damara- og Nama-fólk en um fjórtán hundruð tóku Bantu menn að flytja þangað í stórum stíl og hafa verið meirihluti landsmanna frá lokum nítjándu aldar.

epa000280516 A picture made available Wednesday 22 Wednesday 2004 shows family group of African elephant drinking at a waterhole in the Addo National Park in South Africa in this undated file photo. South Africa and Namibia have submitted proposals ahead
Veiðiþjófar drepa hátt í þrjátíu þúsund fíla á hverju ári. Mynd: EPA - IFAW

Árið 1878 lagði breska nýlendan á Góðravonarhöfða undir sig Walvis-flóa og Penguin-eyjar í núverandi Namibíu sem urðu hluti af Suður-Afríku árið 1910. Árið 1884 stofnuðu Þjóðverjar nýlenduna Suðvestur-Afríku á megninu af því landsvæði sem nú tilheyrir Namibíu. Stjórn þeirra var alræmd á árunum 1904 til 1908 með þjóðarmorði á Herero- og Nama-fólkinu. Þetta hefur verið kallað fyrsta þjóðarmorð tuttugustu aldarinnar. Þjóðverjarnir drápu tíu þúsund Nama eða helming þjóðflokksins og um 65 þúsund Herero-menn eða um áttatíu prósent þeirra. Framferði Þjóðverja var einstaklega ómannúðlegt og sumir sagnfræðingar hafa sagt að þjóðarmorðin í Namibíu hafi verið fyrirmyndin að Helför nasista í seinni heimstyrjöldinni. Yfirráðum Þjóðverja í Namibíu lauk 1915 með sigri herdeilda frá Suður-Afríku. Árið 1920 veitti Þjóðabandalagið Suður-Afríku umboð til að stjórna nýlendunni. Kynþáttalög voru smám saman tekin upp og eftir að Þjóðarflokkurinn komst til valda árið 1948 var aðskilnaðarstefnan Apartheid einnig tekin upp í núverandi Namibíu.

Mynd með færslu
Ida Hoffman, fulltrúi Nama-þjóðarinnar, leggur blóm á minnisvarða í Berlín í júlí 2015 um þá sem létu lífið í Namibíu þegar Þjóðverjar fóru þar með völd á nýlendutímanum. Mynd: EPA - DPA

Síðari hluti tuttugustu aldar einkenndist af sjálfstæðisbaráttu innfæddra sem varð til þess að Sameinuðu þjóðirnar tóku ábyrgð á svæðinu árið 1966, þótt Suður-Afríka færi áfram með raunverulega stjórn á svæðinu. Sameinuðu þjóðirnar ályktuðu árið 1968 að nafn landsins skyldi vera Namibía, í samræmi við vilja þjóðarinnar, og ári síðar ályktuðu samtökin að stjórn Suður-Afríku og herseta þeirra í Namibíu væri ólögleg. Árið 1973 viðurkenndu Sameinuðu þjóðirnar South West Africa People´s Organisation eða SWAPO sem opinberan fulltrúa namibísku þjóðarinnar. Undir forystu SWAPO hélt skæruliðahernaður og sjálfstæðisbarátta áfram með stuðningi frá Sovétríkjunum og bandalagsríkja þeirra en Suður-Afríka naut aðstoðar frá vesturveldunum. Stuðningur við Suður-Afríku meðal alþjóðasamfélagsins fór stöðugt þverrandi og Namibía fékk að lokum fullt sjálfstæði frá Suður-Afríku árið 1990 eftir harða baráttu. Nítíu og sjö prósent kosningabærra kusu í fyrstu kosningum Namibíu og SWAPO fékk 57 prósent atkvæða og hreinan meirihluta á þingi. SWAPO hefur fengið meirihluta í öllum kosningum frá sjálfstæði.

Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Drengsson - RÚV

Landbúnaður, ferðaþjónusta og námuvinnsla eru grunnstoðir atvinnulífsins og er fjöldi málma unninn úr jörð, demantar, úran, gull silfur og aðrir grunnmálmar. Fjórðungur tekna Namibíu er af námuvinnslu. Nærri tuttugu prósent vinnandi fólks starfar í ferðaþjónustu sem skapar fimmtán prósent þjóðartekna. Helmingur þjóðarinnar hefur lífsviðurværi sitt af landbúnaði en stærstu jarðirnar eru enn í höndum hvítra landeigenda frá fornu fari. Namib-eyðimörkin, sem landið dregur nafn sitt af, nær yfir stóran hluta Namibíu og því er landið eitt það strjálbýlasta í veröldinni. Atvinnuleysi er útbreitt og er nærri þriðjungur landsmanna án vinnu. Bilið á milli ríkra og fátækra er mikið. Ríkustu tíu prósent landsins fá yfir helming þjóðartekna en átján prósent þjóðarinnar eru undir hungurmörkum.

Mynd með færslu
 Mynd: - - wikipedia.org

Enska er opinbert tungumál sem notað er í skólum og stjórnsýslu, þótt einungis þrjú prósent þjóðarinnar tali hana innan veggja heimilisins. Mikill meirihluti þjóðarinnar er kristinnar trúar eða á milli 80 og 90 prósent. Langflestir þeirra eru mótmælendatrúar. Samkynhneigð er bönnuð í Namibíu og misrétti í garð hinsegin fólks útbreitt í landinu. Samkvæmt nýlegri könnun hefur þriðjungur kvenna orðið að þola ofbeldi af hendi maka og sama könnun leiðir í ljós að þrjátíu prósent karla telja í lagi að beita konu sína líkamlegu ofbeldi. Vatnsskortur er landlægur og í þrjú hundruð skólum landsins er engin klósettaðstaða með rennandi vatni. Helmingur barnadauða er rakinn til skorts á vatni og hreinlæti. Fjórðung barnadauðans má rekja til niðurgangs. Klósett eru sjaldséður munaður og aðeins á færri þeirra efnameiri. Lífslíkur í Namibíu eru með því minnsta sem gerist í heiminum.

palmij's picture
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV