Mislingafaraldur í Bandaríkjunum

06.05.2017 - 11:00
Mynd með færslu
Barn með mislinga. Mynd frá samtökum barnalækna í Bandaríkjunum (AAP). Mynd: Kastljós - RÚV
34 hafa veikst af mislingum í Minnesota í Bandaríkjunum á síðustu vikum. Washington Post segir þetta stærsta mislingafaraldur í ríkinu í þrjá áratugi. Ellefu börn hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús. Mislingum var útrýmt í Bandaríkjunum árið 2000, að sögn heilbrigðisyfirvalda.

Flest þeirra barna sem veikst hafa eru óbólusett börn úr samfélagi sómalskra innflytjenda sem búa í Bandaríkjunum. Baráttufólk gegn bólusetningum hefur beint sjónum sínum að hópnum undanfarin ár, að því er fram kemur í Washington Post. 

Salah, 26 ára, flutti frá Sómalíu til Minnesota fyrir áratug, segir í samtali við blaðið að hún hafi verið vöruð við því af vinum sínum að bólusetningar geti valdið einhverfu. Sjálf fékk hún mislinga sem barn auk þess sem systir hennar lést af völdum mislinga, aðeins þriggja ára.

Ekki er vitað hvernig mislingafaraldurinn hófst. Þar sem mislingar eru afar fátíðir í Bandaríkjunum, er algengast að fólk veikist þegar það ferðast til útlanda og smitast þar. Bólusetningar gefa nokkuð góða vörn. Hins vegar er sjúkdómurinn bráðsmitandi, sé fólk ekki bólusett.

Efahyggjufólk beinir sjónum að jaðarhópum

Í grein Washington Post kemur fram að kenningar um skaðsemi bólusetninga, sem enginn fótur er fyrir í raunveruleikanum, hafi breiðst hratt út í samfélögum Sómala í Minnesota. Andrew Wakefield hafi ítrekað verið boðið á fundi til að ræða við foreldra ungra barna. Wakefiel skrifaði grein um tengsl bólusetninga og einhverfu sem talin er marka upphaf baráttu gegn bólusetningum. Greinin byggðist á falsaðri rannsókn og hefur verið dregin til baka af tímaritinu Lancet, þar sem hún birtist.

Þá hefur Wakefiled verið sviptur lækningaleyfi í Bretlandi. Engu að síður hefur hreyfing fólks sem er andvígt bólusetningum sótt í sig veðrið undanfarin ár í Bandaríkjunum og víðar. Washington Post segir að baráttufólk gegn bólusetningum hafi beint sjónum sérstaklega að ákveðnum samfélagshópum. ekki síst fólki sem sé á jaðri samfélagsins. Árið 2004 voru um 92% af börnum sómalskra innflytjenda í Minnesota bólusett gegn mislingum. Tíu árum síðar, árið 2014, hafði hlutfallið hríðlækkað í 42%. Alls eru um 89% barna í Minnesota bólusett gegn mislingum.

Helsta dánarorsök ungra barna í heiminum

Mislingar eru bráðsmitandi veirusjúkdómur sem veldur hita og útbrotum um allan líkamann. Þeir geta verið hættulegir og jafnvel valdið dauða, sérstaklega hjá börnum sem þjást af vannæringu. Mislingar eru ein helsta dánarorsök ungra barna í heiminum. Talið er að 134.200 hafi látist úr mislingum árið 2015, að sögn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO.  Um 95% dauðsfallanna verða í fátækum ríkjum, aðallega í Afríku og Asíu. 

Mislingatilfellum fjölgar á ný eftir að hafa verið útrýmt

Fátítt er að fólk smitist af mislingum í Norður-Ameríku og Evrópu, enda stór hluti íbúa bólusettur. Í Evrópu smituðust 4.484 af mislingum í Evrópu í fyrra. Flestir smituðust í Rúmeníu (.1940), á Ítalíu (1.020) og í Bretlandi (575). 88% þeirra sem smituðust höfðu ekki fengið neina bólusetningu. Greint var frá því nýlega að 17 börn látist af völdum mislinga í Rúmeníu frá því í september í fyrra. Ekkert þeirra var bólusett gegn sjúkdómnum. Trúarleiðtogar og fólk sem er áberandi í rúmensku þjóðlífi, hafa farið fyrir baráttu gegn bólusetningum í landinu.

Í Bandaríkjunum smituðust nærri 150 í mislingafaraldri árið 2014. Í janúar var greint frá því að minnst 18 hafi veikst af mislingum í Los Angeles og nágrenni. Flest þeirra sem smituðust höfðu ekki verið bólusett. 16 tilfellanna komu upp í samfélagi rétttrúargyðinga.

Í mars greindist níu mánaða gamalt barn með mislinga hér á landi. Barnið þurfi að leggjast inn á sjúkrahús en náði sér af veikindunum. Barnið hafði verið á ferðalagi með fjölskyldu sinni í Tælandi. Vegna ungs aldurs hafði barnið ekki verið bólusett.

 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi