Minntist aldrei á minnisleysi í fyrri viðtölum

26.01.2019 - 13:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ummæli Gunnars Braga Sveinssonar, þingflokksformanns Miðflokksins, á Hringbraut í vikunni hafa vakið töluverða athygli. Þar sagðist hann ekkert muna eftir þriðjudagskvöldinu örlagaríka á Klaustri og fallið í 36 klukkustunda óminni, frá því að hann gekk inn um Klausturdyrnar og fram á fimmtudagsmorgunn. Þarna kveður við nýjan tón hjá Gunnari Braga, en þetta er í fyrsta sinn sem hann ber við algjöru minnisleysi þetta kvöld. Hann hefur ekki viljað veita RÚV viðtal vegna málsins.

„Hefði átt að sleppa síðustu drykkjunum”

Miðvikudagskvöldið 28. nóvember birtu Stundin og DV fyrstu fréttirnar upp úr Klausturupptökunum. Þær voru frá Báru Halldórsdóttur sem hafði tekið samtal þingmanna sex upp á gamlan Samsung síma rúmri viku áður, þriðjudagskvöldið 20. nóvember, þar sem hún sat á Klaustri og heyrði það sem fram fór. Daginn eftir að fréttirnar birtust kom Gunnar Bragi í viðtal í Morgunútvarpið á Rás 2. Þar sagðist hann hafa verið mjög drukkinn umrætt kvöld og sæi mikið eftir þeim orðum sem hann hafði látið falla. Hann minntist þó ekkert á að hann myndi ekkert eftir kvöldinu, þó að hann viðurkenndi að hann mundi ekki allt sem farið hefði fram á Klaustri þar sem honum hefði brugðið þegar hann heyrði upptökurnar. 

Sama kvöld sagði Gunnar Bragi meðal annars í Kastljósi:

„Ég hefði átt að sleppa síðustu drykkjunum, það er alveg ljóst." - „Það er engin afsökun fyrir þessu önnur en að maður hafi verið í stórkostlega undarlegu hugarástandi. Og á því ber maður sjálfur ábyrgð.” - „Ég er alveg heiðarlegur í þessu, ég er bara að segja nákvæmlega hvernig þetta var." - „Ég held að fólk sjái það að við fórum vissulega yfir strikið og við eigum að skammast okkar." 

Þegar hann var spurður um afstöðu sína gagnvart upptökunni sjálfri sagði Gunnar Bragi: 

„Ég sagði við blaðamann sem hringdi í mig að mér fyndist skrýtið að nota upptökur sem er náð ólöglega. Það er minn skilningur að það sé ólöglegt að taka þetta upp. En ég held hins vegar eftir á, þá skil ég vel að blaðamenn skuli fjalla um þetta. Og geri í sjálfu sér enga athugasemd við það.” 

Mynd:  / 
Viðtal við Gunnar Braga í Kastljósi 29. nóvember 2018

„Þetta var mjög skemmtilegt hins vegar”

DV birti í gær upptöku af símtali blaðamanns við Gunnar Braga sem var gerð miðvikudagskvöldið 28. nóvember, sama kvöld og fyrstu fréttir birtust af málinu. Þar segist Gunnar Bragi ítrekað muna eftir orðum sem voru látin falla á Klausturbarnum átta dögum áður, en sagði þau öll sett fram í gríni.

„Ég man bara að það flaug allur fjandinn þarna en þetta var mjög skemmtilegt hins vegar.”

30. nóvember tilkynntu Gunnar Bragi og Bergþór Ólason svo að þeir væru farnir í ótímabundið launalaust leyfi frá þingstörfum vegna málsins.

Segist njóta trausts síns kjördæmis

Það var svo nú á fimmtudagsmorgunn, rúmum einum og hálfum mánuði síðar, sem tvímenningarnir mættu til starfa í þingsal á ný, flestum að óvörum. Augljóst var að nærvera þeirra litaði þingstörfin, nokkrir stigu í pontu og lýstu yfir furðu sinni og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, gekk í tvígang að Gunnari Braga og hvíslaði einhverju eyra hans og gekk þar næst út úr þingsalnum. Lilja sagði síðar í viðtali að hún hafi þar verið að láta óánægju sína í ljós. Í fréttum sama kvöld sagði Gunnar Bragi að hann nyti trausts kjósenda sinna og kjördæmis síns. 

„Ég nýt klárlega trausts hjá mínum kjósendum og fólkinu mínu í kjördæminu. Það er klárlega það fólk, fólkið sem kaus mig hingað og ég hef verið að hitta og ræða við og það er það fólk sem hefur verið að hvetja mig til að koma hingað aftur.” 

Gunnar Bragi var áður þingmaður Norðvesturkjördæmis, en skipti yfir í Suðvesturkjördæmi fyrir síðustu kosningar. Formaður Miðflokksfélags Norðvesturkjördæmis sagði í samtali við fréttastofu að félagið væri ekki búið að taka málið fyrir, en vildi ekki svara hvort hún styddi Gunnar Braga. Annar í félaginu svaraði því til að hún hefði sagt sig úr því af persónulegum ástæðum. 
Formaður Miðflokksfélags Suðvesturkjördæmis er Una María Óskarsdóttir, sem settist á þing fyrir Gunnar Braga í fjarveru hans. Hún var áður í Framsóknarflokknum, eins og margir Miðflokksmenn, og var meðal annars formaður Landssambands framsóknarkvenna. 

Óminni fram á fimmtudag og týndi fötunum sínum

Sama kvöld, fimmtudagskvöldið síðasta, komu þeir Gunnar Bragi og Bergþór í viðtal til Lindu Blöndal á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Þar bar hann því við að hann hefði fallið í 36 klukkustunda óminni, sem hófst um leið og hann gekk inn á Klausturbarinn, og varði þá fram á fimmtudagsmorgunn. 

„Það sem situr einna verst í mér eftir þetta kvöld er í fyrsta lagi það að muna ekki neitt frá því að ég kem inn á barinn og einum og hálfum sólarhring eftir. Það er algjört blakkát. Algjört minnisleysi. Ég hvorki veit hvað ég gerði, ég þurfi að hlusta á upptökurnar, ég týndi fötunum mínum þessa nótt. Það er algjört blakkát. Það hefur aldrei komið fyrir mig áður. Þannig að ég velti fyrir mér hvað í fjandanum gengur á þarna. 

Svo er það hitt. Að reiðin í röddinni hjá þessum manni sem þarna talaði, hún er mér áhyggjuefni. Þess vegna sem ég hef verið að leita mér aðstoðar, þess vegna hef ég ekki smakkað áfengi síðan 20. nóvember. Vegna þess að ég vil komast að því hvað þarna gerðist áður en að önnur skref eru tekin. Ég hef talað við vini og kunningja og fjölskyldu, og það eru allir sammála um það að þessi sem þarna talaði er einhver annar maður en sá sem við þekkjum.” 

Linda: „Það er ein skilgreining á alkahólisma, persónuleikabreyting og blakkát.” 

„Jájá, en það virðist ekki vera í þessu tilviki. Það er eitthvað annað sem gerist þarna. Þetta hefur aldrei komið fyrir áður. Og ekki er það þannig að við séum sitjandi að sumbli alla daga.” 

Var einn fjarverandi daginn eftir Klaustur 

Sé dagskrá Alþingis skoðuð aftur í tímann sést að Gunnar Bragi var sá eini sem mætti ekki í þingsal morguninn eftir Klausturferðina, miðvikudaginn 21. nóvember, þar sem fór fram atkvæðagreiðsla um fjárlög. Hann mætti þó til atkvæðagreiðslu á fimmtudeginum eftir hádegi, en samkvæmt orðum hans á Hringbraut var hann í óminni fram á fimmtudagsmorgun. 

Gunnar Bragi hefur ekki viljað veita RÚV viðtal undanfarna daga þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi