Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Minnsta hækkun fasteignaverðs síðan 2015

24.07.2017 - 11:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Verulega dró úr hækkun á fasteignaverði á höfuðborgarsvæðinu í júní. Í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans, sem kom út í dag, segir að rólegur tími í fasteignaviðskiptum sé á þessum árstíma og of snemmt að segja til um það hvort fasteignamarkaðurinn sé að kólna.

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,2 prósent í júní. Verð á sérbýli hækkaði um 1,6 prósent en verð á fjölbýli lækkaði um 0,2 prósent. Samkvæmt tölum Þjóðskrár hefur verð á fjölbýli hækkað um 21,4 prósent á síðustu 12 mánuðum, verð á sérbýli um 20,4 prósent og er heildarhækkunin 21,2 prósent.

Í Hagsjánni segir að hækkunin núna í júní sé sú minnsta síðan í ágúst 2015. Þá hefur fjölbýli ekki lækkað í verði síðan í júní 2015. „Of snemmt er að segja nokkuð um hvort markaðurinn sé að kólna eða ekki. Sumarið er oft rólegur tími í fasteignaviðskiptum og þar að auki má ætla að framboð hafi ekki enn aukist nægilega til þess að hafa áhrif á verðþróun,“ segir í Hagsjánni.

Auglýstum fasteignum hefur fjölgað örlítið á allra síðustu mánuðum eftir að hafa verið í lágmarki í vor, að því er fram kemur í Hagsjánni.