Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Minnst tveir féllu í árás lögreglu í París

18.11.2015 - 07:09
epa05030669 Firemen  wait for the develop of the operation in the city center of Saint Denis, near Paris, France, 18 November 2015. An area was cordoned off in the northern Paris suburb of Saint Denis, close to the Stade de France, which was one of
 Mynd: EPA
Uppfært: Minnst tveir grunaðir hryðjuverkamenn létust í árás hers og lögreglu á íbúð í fjölbýlishúsi í Norður-París í morgunsárið. Karlmaður var skotinn til bana, en kona íklædd sprengjuvesti sprengdi sig sjálf. Fimm voru handteknir, þrír þeirra voru í íbúðinni með konunni. Ekki hefur verið greint nánar frá því hvaða fólk þetta var, en aðgerðir lögreglu eru sagðar hafa beinst að Belganum Abdelhamid Abaaoud, meintum höfuðpaur hryðjuverkamannanna sem unnu voðaverkin í París á föstudag.

Íbúar Saint-Denis-hverfisins vöknuðu við skothríð um hálf-fimmleytið í nótt að staðartíma, þegar lögregla réðist til atlögu með þungvopnaða 50 manna sérsveit úr hernum sér til fulltingis. Árásin beindist gegn nokkrum grunuðum hryðjuverkamönnum sem héldu til í íbúð í fjölbýlishúsi. Til skotbardaga kom og umsátursástand myndaðist um íbúðina. Vitni greina frá mikilli sprengingu í bland við skothríðina. Að minnsta kosti þrír lögreglumenn munu hafa særst í átökunum.

Íbúum og vegfarendum sem reyndu að forvitnast um hvað gengi á var sagt að halda sig fjarri. Hermenn stóðu vörð meðfram aðalgötu Saint-Denise, í næsta nágrenni fjölbýlishússins. Á fréttavef Al Jazeera-fréttastofunnar segir að skothríðin hafi staðið í stundarfjórðung til að byrja með, síðan hafi orðið nokkuð lát á, áður en hún hófst að nýju stundarfjórðungi síðar. Stóð hún drjúga stund áður en yfir lauk. Stade de France-leikvangurinn, eitt af skotmörkum hryðjuverkamannanna, er í Saint-Denis. 

Saksóknari greindi frá því í morgun að lögregla hefði sleppt ættingjum og vinum tveggja manna sem tóku þátt í árásinni við Bataclan tónlistarstaðinn í París á föstudag, þar sem 89 létust. Fólkið var flest handtekið daginn eftir árásirnar.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV