Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Minnst tuttugu hafa látist í fellibylnum Phanfone

26.12.2019 - 20:53
Mynd: EPA-EFE / EPA
Minnst tuttugu hafa látist á Filippseyjum af völdum fellibylsins Phanfone sem gekk yfir landið í gær. Fjöldi fólks þarf á neyðaraðstoð að halda og mörg heimili á Filippseyjum verða líklega án vatns og rafmagns vikum saman.

Fellibylurinn gekk á land snemma á jóladag og fór yfir mitt landið með sína sterku vinda og úrhellisrigningu. Vindhraðinn var allt að fimmtíu metrum á sekúndu í kviðum.  Verst kom hann niður á héruðunum Capiz og Iloilo. 

Eyðileggingin sem blasti við í kjölfar bylsins var gríðarleg. Rafmagnsstaurar voru víða brotnir með þeim afleiðingum að rafmagn fór af mörgum bæjum. Tré rifnuðu víða upp með rótum auk þess sem fjöldi húsa eyðilögðust.

Búið var að rýma stóran hluta þeirra þegar bylurinn reið yfir, sem varð til þess að dauðsföll urðu ekki fleiri. Ljóst er þó að fjöldi manns þarf mataraðstoð þar sem veðrið hefur áhrif á uppskeru. Búist er við að vikur líði þangað til rafmagn kemst á alls staðar, sem og að  öll heimili hafi aðgang að hreinu vatni.

Um tuttugu og fimm þúsund ferðamenn eru strandaglópar þar sem siglingar og flug liggja niðri. Óvist er hvenær hægt er að koma þeim af stað þar sem hafnir og flugvellir hafa víða skemmst. 
 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn