Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Minnst tíu dóu í skjálftanum á Lombok

29.07.2018 - 04:53
In this image made from video released by Indonesia's Disaster Mitigation Agency, a man inspects the damage caused by an early morning earthquake on the island of Lombok, Indonesia, Sunday, July 29, 2018. A shallow magnitude 6.4 earthquake early
 Mynd: AP
Minnst tíu manns fórust og tugir slösuðust þegar jarðskjálfti af stærðinni 6.4 reið yfir eyjuna Lombok í Indónesíu laust fyrir klukkan sjö í morgun að staðartíma; laust fyrir ellefu í gærkvöld að íslenskum tíma. Tveir stórir eftirskjálftar, yfir 5 að stærð, fylgdu í kjölfarið og tugir minni skjálfta að auki. Sutopo Purwo Nugroho, talsmaður almannavarna Indónesíu, segir líklegt að fleiri hafi farist í skjálftanum.

„Jarðskjálftinn varð minnst tíu manns að bana, um fjörutíu slösuðust og tugir húsa skemmdust,“ sagði Nugroho á fréttamannafundi í morgun. „Við gerum ráð fyrir að þessar tölur eigi eftir að hækka þar sem við höfum enn ekki lokið gagnasöfnun.“

Upptök skjálftans voru á sjö kílómetra dýpi, um 50 kílómetra norðaustur af héraðshöfuðborg Lombok, Mataram. Lombok er vinsæll áfangastaður ferðafólks víða að úr heiminum en áhrifa skjálftans gætti þó lítið á vinsælustu ferðamannastöðunum á eyjunni. Ekki þótti ástæða til að gefa út flóðbylgjuviðvörun vegna skjálftans. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV