Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Minnst sjö féllu í hryðjuverkaárás í Sómalíu

13.07.2019 - 00:35
A Woman gather near destroyed buildings after a car bomb detonated in Mogadishu, Somalia, Monday July 8, 2019. (AP Photo / Farah Abdi Warsameh)
Hryðjuverkasamtökin al Shabab valda enn miklum usla og ógn í Sómalíu. Þessi mynd er tekin í höfuðborginni Mogadishu á mánudag, 8. júlí, við rústir húss sem hrundi þegar bílsprengja var sprengd við húsgaflinn. Mynd: epa
Minnst sjö manns týndu lífi í sjálfsmorðssprengju- og skotárás hryðjuverkamanna á hótel í sunnanverðri Sómalíu í dag, samkvæmt upplýsingum þarlendra yfirvalda. AFP-fréttastofan hefur eftir Abdi Dhuhul, yfirmanni öryggismála á svæðinu, segir sjö dauðsföll staðfest og að ekki sé útilokað að fleiri eigi eftir að falla eða finnast látnir, þar sem árásinni sé mögulega ekki lokið enn.

Samkvæmt tilkynningu yfirvalda ók sjálfsmorðssprengjumaður bíl hlöðnum sprengiefni inn í hótel í hafnarborginni Kismayo og sprengdi hann í loft upp. Í framhaldinu réðust þungvopnaðir byssumenn til atlögu og ruddu sér leið inn í hótelið, skjótandi á allt sem fyrir varð.

Stjórnmálamenn og ættbálkahöfðingjar af svæðinu eru sagðir á meðal fallinna, auk vinsællar sjónvarpsfréttakonu og eiginmanns hennar. Hryðjuverkasamtökin Al Shabab hafa þegar lýst illvirkinu á hendur sér. Óljóst er á þessari stundu hvort hryðjuverkamennirnir séu enn inni í hótelinu eða ekki.