Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Minnst einn látinn í óveðrinu

02.09.2019 - 12:01
Mynd: EPA-EFE / NASA
Staðfest er að einn hafi farist af völdum fellibylsins Dorian á Bahama-eyjum. Bylurinn hefur farið yfir Abaco-eyjar og er nú á leið yfir Grand Bahama. Rauði krossinn telur allt að 13.000 hús hafa skemmst eða eyðilagst.

Fellibylurinn stefnir á austurströnd Bandaríkjanna og í gærkvöld sat Donald Trump forseti fund hjá almannavarnastofnuninni FEMA þar sem rædd voru viðbrögð og ráðstafanir. 

Trump sagði Dorian einn öflugasta fellibyl sem vitað væri um. Áhrifa frá honum yrði að gæta hundruð kílómetra frá miðju hans og yrði vart löngu áður en hann kæmi að landi í Bandaríkjunum.

Yfirvöld í Flórída, Georgíu, Suður- og Norður-Karólínu hafa lýst yfir neyðarástandi vegna fellibylsins. Hundruðum þúsunda manna hefur verið gert að forða sér frá strandhéruðum áður en óveðrið skellur á af fullum þunga.