Minnst 16 fórust í fellibyl á Filippseyjum í gær

26.12.2019 - 04:33
Erlent · Hamfarir · Asía · Filippseyjar · Veður
epa08089577 Villagers collect materials from a collapsed home on Christmas day in the typhoon-hit city of Ormoc, Philippines, 25 December 2019. Typhoon Phanfone, (locally known as Ursula), made landfall in the Philippines with sustained winds of up to 150 kilometers per hour and caused cancellation at airports, seaports, and bus stations, affecting thousands of travelers on Christmas eve. Christmas is one of the busiest times of the year in the country, an archipelago made up of more than 7,000 islands with a population that is mostly Catholic.  EPA-EFE/ROBERT DEJON
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Minnst sextán manns fórust þegar fellibylurinn Phanfon gekk yfir Filippseyjar á jóladag. Almannavarnir eyjanna staðfesta þetta, segir í frétt AFP, þar sem fram kemur að dauðsföllin hafi öll orðið um miðbik Filippseyja. Bylurinn gekk yfir eyjaklasann miðjan og tók land á sjö stöðum áður en hann færðist aftur út á Suður-Kínahaf.

Vindhraði fór yfir 50 metra á sekúndu í verstu hviðunum og úrhellisrigning olli miklum vatnavöxtum og flóðum. Tré rifnuðu upp með rótum og fjöldi húsa eyðilagðist og skemmdist, auk þess sem rafmagn fór af heilu borgunum.

Þúsundir neyddust til að leita skjóls í neyðarskýlum á meðan bylurinn gekk yfir og tugir þúsunda ferðalanga komust hvorki lönd né strönd vegna veðursins og flóða sem því fylgdu, þar sem  samgöngur í lofti, á láði og legi gengu meira og minna úr skorðum. Talið er að nokkrir dagar séu í að allar leiðir sem lokuðust í veðurofsanum opnist á ný. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi