Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Minnka flugvélaflota vegna færri farþega

08.08.2019 - 16:17
Air Iceland Connect
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, segir að áform flugfélagsins, um að minnka flugflota og fækka flugferðum til Ísafjarðar og Egilsstaða, séu viðbrögð við fækkun farþega í innanlandsflugi. Samdrátturinn er afleiðing af niðursveiflu í hagkerfinu.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra hefur sagt að það komi til greina að niðurgreiða flugfargjöld íbúa á landsbyggðinni. Árni segir flugfélagið vel í stakk búið til að bregðast við aukinni eftirspurn ef til aðgerða stjórnvalda kemur.

„Við teljum okkur, þrátt fyrir þessar aðgerðir, að við séum að stefna að því að fækka í flotanum, að þá munum við hafa svigrúm til að bæta við tíðni og bæta við ferðum þrátt fyrir að vera með færri flugvélar,“ segir Árni í samtali við fréttastofu.

„Þannig að við sjáum alveg fram á tækifæri á að gera og mæta þeim breytingum sem stjórnvöld hafa í hyggju með því að fjölga ferðum ef markaðurinn stækkar aftur,“ segir hann.

Forseti bæjarstjórnar á Fljótsdalshéraði og bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar harma áformaðar aðgerðir flugfélagsins. Flugsamgöngur séu nauðsynlegar fyrir atvinnulífið og til að tryggja aðgengi að sérhæfðri þjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar kallar eftir aðgerðum stjórnvalda með niðurgreiðslu á flugfargjöldum að skoskri fyrirmynd.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV