Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Minnisvarði um hverfult listform

Mynd: RÚV/samsett mynd / RÚV/samsett mynd

Minnisvarði um hverfult listform

06.02.2020 - 15:41

Höfundar

Lesendur eru í öruggri handleiðslu Jóns Viðars Jónssonar í bókinni Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925-1965, mati ritdómara Víðsjár. „Textinn er fágaður og rennur vel, bókin er áhugasömum afskaplega skemmtileg aflestrar og Jón Viðar leitar víða fanga.“

Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:

Jón Viðar Jónsson leikhúsfræðingur hefur um árabil staðið í fremstu víglínu rannsókna á íslenskri leiklistarsögu og hlaut fyrir skemmstu íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita og rita almenns eðlis fyrir sitt nýjasta ritverk, Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925-1965. Áður hafa meðal annars komið út eftir hann bækurnar Leyndarmál frú Stefaníu, um Stefaníu Guðmundsdóttur leikkonu, sem jafnframt kemur allmikið við sögu í nýja ritinu. Bókin um Stefaníu kom út árið 1997 en árið 2004 sendi Jón Viðar frá sér Katusblómið og nóttina, um Jóhann Sigurjónsson, en auk rit- og fræðistarfa veitti Jón Viðar einnig Leikminjasafni Íslands forstöðu. Af formlegri starfsemi þess var látið í fyrra, nokkuð sem hægt væri að ræða í mun lengra máli en hér verður gert, en eins og kemur fram í formála hinnar nýútkomnu bókar byggist hún að allmiklu leyti á frumrannsóknum sem unnar voru á meðan Leikminjasafnsins naut við.

Stjörnur og stóveldi er að sumu leyti dálítið óvenjulegt rit, einkum og sér í lagi ef litið er til fræðilegra skrifa um leikhús, en um leið er það afskaplega íslenskt. Það stillir sér kirfilega upp innan þeirrar hefðar æviþátta, ævisagna og ættarfróðleiks sem jafnan hefur notið vinsælda hérlendis og lýsir Jón Viðar því sem svo að hann nálgist leiklistarsöguna í gegnum persónusöguna. Það gerir hann með því að fjalla í tímaröð um lífshlaup þeirra einstaklinga sem öðrum fremur báru íslenskt leikhús uppi á tímabilinu sem getið er um í titlinum, frá 1925 til 1965. Verkið samanstendur þannig af 11 æviþáttum, sem í öllum tilvikum er fylgt úr hlaði með skemmtilega ævintýralegri yfirskrift, Indriði Waage er „foringinn sem féll í gleymsku“, Alfred Andrésson er „fórnarlamb lýðhyllinnar“, Lárus Pálsson „tragískur tímamótamaður“ og Þorsteinn Ö. Stephensen er „risinn í Ríkisútvarpinu“. Aðspurður í viðtali lagði Jón Viðar út af ritunaraðferð sinni með því að benda á að þótt hefðbundnara þætti til dæmis að segja sögu stofnana á borð við leikhúsanna sjálfra sé hættan við stofnanasögu sú að listin gleymist, stofnanir skapa ekki list benti Jón Viðar á í viðtalinu, heldur listamenn. 

Verk Jóns Viðars ber einmitt að skilja í samhengi við áherslu hans á listsköpun og þá einkum í sér í lagi sem tilraun til að varðveita og reisa minnisvarða um listform sem er forgengilegra en flest önnur, og lýtur í raun allt öðrum lögmálum. List sem sköpuð er á fjölum leikhúsa er hverful, hún gufar upp að sýningu lokinni og er hvergi til þangað til leikhópurinn leggur til atlögu við leikinn öðru sinni, og svo í það þriðja, þá fæðist hann að nýju  – allt þar til látið er af sýningum og listaverkið sem búið er til í samvinnu fjölda einstaklinga hverfur af sjónarsviðinu, flytur sig inn á huglægt og afar brigðult svið endurminninga þeirra sem það sáu og þeirra sem að því stóðu. Á þessu eru ákveðnar undantekningar, stundum eru leikrit tekin upp eða hljóðrituð, en almennt séð glímir sviðslistafræðingurinn við áskoranir sem fræðafólk á öðrum sviðum menningargreinanna sleppur að mestu við, blessunarlega myndi ég vilja skjóta inn því ekki finnst mér þetta öfundsvert hlutskipti. Og við lestur bókar Jóns Viðars sér maður höfund glíma við þessa erfiðleika á nærri því hverri blaðsíðu: Hvernig skal meta og fjalla um listsköpun hvurs birtingarmynd er horfin og ógerlegt er að ná beinni tengingu við? 

Kvikmyndasagan liti til að mynda allt öðru vísi út, væri skrifuð með allt öðrum hætti, ef kvikmyndasagnfræðingar hefðu ekki annað við að styðjast en blaðadóma, skrif hlutaðeigandi aðila, formleg gögn fyrirtækja og stofnana, handrit og stöku myndbrot – en kvikmyndirnar sjálfar væru ekki fyrir hendi. Sömuleiðis þætti mér persónulega afskaplega erfitt að gera með faglegum hætti grein fyrir bókmenntaverki sem ég las fyrir kannski tíu árum, eða tuttugu, en hefði ekki haft aðgang að síðan. En þannig er leiklistarsögunni farið að iðulega er stuðst við endurminningar fólks af leikverkum sem það einhvern tíma sá á lífsleiðinni, oft og tíðum fyrir löngu síðan. Ég legg áherslu á þetta til að draga fram þann faglega vanda sem Jón Viðar stendur frammi fyrir sem sagnfræðingur leikhússins, og líka til að bregða birtu á og undirstrika það afrek sem hann vinnur í riti sínu. Mér er til efs að færari maður en Jón Viðar sé fyrir hendi hér á landi til að vinna þessa vinnu og við lesturinn finnst lesanda hann vera undir öruggri handleiðslu. Viðhorf Jóns Viðars er gagnrýnið þegar að heimildaúrvinnslu kemur, til að mynda þegar um lestur blaðadóma er að ræða, en undir þeim kringumstæðum sem ég lýsti hér að ofan öðlast blaðadómar gríðarlegt vægi. Þeir eru í mörgum tilvikum helsta heimildin um sviðsuppfærslur fortíðarinnar, og þá ekki aðeins hvort að vel hafi verið að verki staðið heldur líka hitt, og þetta á auðvitað aðeins við um faglega og ítarlega dóma, hvernig sjónrænni hlið sýninga var háttað – leikmynd, búningahönnun og lýsing – þótt þar geti ljósmyndir auðvitað einnig reynst mikilvægt haldreipi. 

Fjölmargir annmarkar eru auðvitað á heimildargildi dagblaðsdóma, og í samhengi við íslenska leikhúsið margfaldast þeir og verða næstum yfirþyrmandi. Takmörkuð þolinmæði var fyrir neikvæðum dómum, slíkt hefur lengi þótt dónaskapur hinn mesti í okkar litla samfélagi og í örsamfélagi Reykjavíkur á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar hlýtur óþolið blátt áfram að hafa verið þrúgandi. En fleira kom til, þeim sem um pennan héldu fannst ekkert endilega sjálfsagt að áhugamannaleikhús á borð við Leikfélag Reykjavíkur væri sett á sama stall og fagleikhús og sömu kröfur gerðar, þvert á móti, eðlilegt væri að meta sýningarnar í samhengi við það sem hægt væri að ætlast til af fólki sem þetta gerði í hjáverkum. Svo spilaði flokkapólitík og ættarveldispólitík sína rullu, og það er bókstaflega aðdáunarvert hvernig Jón Viðar kreistir fram það litla heimildargildi sem þó er til staðar úr þessum skrifum, oft með því að leita víða fanga og bera ólík skrif saman í leit að sameiginlegum atriðum. 

Það ekki hægt að segja annað en að Jón Viðar glími hér við margflókið viðfangsefni. En flækjustigið hækkar enn þegar haft er í huga hvert eiginlegt viðfangsefni ritsins er, nefnilega stjörnur leikhússins, með öðrum orðum leiktjáning. Þar blasir við enn eitt vandamálið. Eftir að myndlistin sagði skilið við fígúratífar framsetningar er það helst leiklistin sem varðveitir eitthvað sem kalla mætti sannferðugan húmanískan kjarna en rétt eins og höfundur nefnir oftar en einu sinni er afskaplega erfitt að festa hendur á því sem skilur stórbrotinn leikara frá öðrum smærri, þetta er með orðum Jóns Viðars hið „dularfulla sem aldrei verður skilgreint“, og víst er að í mati á listrænum árangri er ágreiningurinn iðulega hvergi hatrammari en einmitt þegar að þessu atriði kemur, hvað er góð leikframmistaða, og hvergi eru mælistikurnar huglægari.

Andspænis öllu þessu hefur Jón Viðar gert allt sem í hans valdi stendur til að endurskapa lífshlaup mikilvægs leikhúsfólks og sömuleiðis áætlaða tinda í listaferli þess. Hér á undan nefndi ég að lesandi hefði á tilfinningunni að hann væri undir öruggri handleiðslu í þessu umfangsmikla riti og vert er að ítreka það. Textinn er fágaður og rennur vel, bókin er áhugasömum afskaplega skemmtileg aflestrar og Jón Viðar leitar víða fanga í að finna brotin til að raða í þá tilraun til heildarmyndar sem hér er á ferðinni. Þeir sem þekkja höfund kannski helst fyrir beitta leikhúsdóma í fjölmiðlum kynnast hér annari hlið á honum, ástríða Jóns Viðars og væntumþykja í garð efnisins og yfirburðaþekking eru hvarvetna til sýnis.

Tengdar fréttir

Innlent

Leikhúsgestur missti meðvitund á Vanja frænda

Bókmenntir

Sölvi Björn, Jón Viðar og Bergrún Íris verðlaunuð

Bókmenntir

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna kynntar

Leiklist

Fjölbreytt dagskrá Útvarpsleikhússins í vetur