Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Minnismerki um skugga fortíðar

Mynd: eji.org / eji.org

Minnismerki um skugga fortíðar

18.04.2018 - 15:18

Höfundar

Montgomery í Alabama er ein mikilvægasta borgin í sögu mannréttindahreyfingarinnar sem barðist fyrir jafnrétti ólíkra kynþátta í Bandaríkjunum á sínum tíma. Þar var „strætóverkfallið“ árið 1955 þegar svartir íbúar borgarinnar hættu að nota strætisvagnanna þar sem þeim var skikkað að sitja aftast. Nú stendur til að vígja nýtt minnismerki í borginni til minningar um þá sem létu lífið í kynþáttahatri víða um Bandaríkin á árunum 1877 til 1950.

Frá Montgomery í Alabama, sem bæði er kölluð „fæðingastaður mannréttindahreyfingarinnar“ og „vagga Suðurríkjasambandsins“ berast nú fréttir um nýjar tilraunir til að halda baráttu mannréttindahreyfingarinnar áfram og benda á misrétti bæði í fortíð og nútíð. Undir lok mánaðarins, 26. apríl nánar tiltekið, verður opnað nýtt minnismerki í borginni. Það heitir upp á ensku National Memorial for Peace and Justice og heldur uppi arfleifð þrælanna, allra þeirra sem lifðu í ótta við það að vera drepnir af æstum múgi vegna litarháttar síns og sýnir um leið stuðning þeim sem í samtíma okkar lifa við byrðina sem fylgir því að vera brennimerktur fordómum um fyrirfram gefna sekt.  

Það er stofnun sem heitir Equal Justice Initiative sem stendur að minnismerkinu en hún berst fyrir bættum mannréttindum og réttaröryggi borgaranna.  Vinna við minnismerkið hefur staðið yfir frá árinu 2010 þegar starfsmenn stofnunarinnar hófu að rannsaka eins nákvæmlega og hægt er þúsundir aftaka sem fram fóru í Suðuríkjunum, svokallaðar „lynchings“ sem margar hverjar voru þar með skrásettar í fyrsta sinn með einhverjum formlegum hætti. Talið er að sex miljónir svartra íbúa í suðrinu hafi lagt á flótta norður á bóginn til að forðast ofbeldið.  

Rannsóknarverkefnið varð að skýrslu sem aðgengileg er á netinu og hefur nú komið út í þremur útgáfum, enda bætist alltaf í vitneskju þeirra sem að verkefninu standa. Þar er núna greint frá 4440 morðum á árunum 1877 til 1950 en þar af var ekki áður vitað um 800 tilvik. Jafnframt hafa verið sett upp skilti á þekktum stöðum þar sem slíkar aftökur fóru fram. Takmarkið er að endurmóta menningarlandslagið með minnismerkjum og gefa þannig sannari mynd af þeirri sögu sem landið hefur að geyma.

Á að dreifast um landið

Nýja minnismerkið er engin smá smíði, sett upp á tveimur og hálfum hektörum lands. Skúlptúr, myndlist og hönnun koma saman til að myndgera kynþáttahatur og ógnina sem því fylgdi. 800 stálsúlur sem hver og ein eru rúmir 180 cm á hæð túlka fórnarlömbin sem týndu lífi í múgmorðunum á sínum tíma. En í kringum þau merki verða önnur sem bíða þess að vera sótt og sett upp í viðkomandi sýslum víða um Bandaríkin. Þannig ætlast aðstandendur verkefnisins til þess að verkið dreifist um landið þar sem ofbeldið fór fram. Verkinu er þannig ætlað að gefa til kynna hvaða landsvæði hafa horfst í augu við sögulega fortíð sína af heilindum og hver ekki.

Langur skuggi enn til staðar

En af hverju að byggja slíkt minnismerki? Á heimasíðu verkefnisins er réttilega bent á að það að horfast í augu við sannleikann sé fyrsta skrefið í átt að bata og sáttum. Sögu kynþáttahyggjunar þurfi að viðurkenna og glæpina sem hún kveikti. Þannig er horft á minnismerkið sem helgan stað sem snýst um það að segja satt og íhuga kynþátta-ofbeldið og arfleifð þess í Bandaríkjunum.

„Saga landsins þegar kemur kynþáttabundnum órétti varpar löngum skugga á bandarískt landslag,“ er haft eftir stjórnanda stofnunarinnar Bryan Stevenson. „Þessum skugga verður ekki lyft fyrr við bregðum birtu sannleikans á það eyðileggjandi ofbeldi sem mótaði þjóðina, hélt hinum lituðu í ógnargreipum og leysti upp skuldbindingar okkar við lög, reglu og mannréttindi.“

Og opnun nýja minnismerkisins stendur fyrir dyrum í Montgomery í Alabama 26. apríl. Henni verður fylgt úr hlaði með miklu funda- og málþingshaldi eins og gefiur að skilja, þar sem þjóðþekktir einstaklingar munu taka til máls, listamenn koma fram og búist er við þúsundum gesta að þessu tilefni. Í hverfinu þar sem nýja minnismerkið verður staðsett eru íbúar bjartsýnir samkvæmt fréttaflutningi staðarblaða og líta svo á að minnis merkið muni vekja mikla athygli og hafa í för með sér jákvæð efnahagsleg áhrif.

Fjallað var um minnismerkið í Víðsjá á Rás 1 en hér má sjá kynningarmyndband um verkefnið: