Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Minnihluti vill áfengi í matvöruverslanir

12.11.2015 - 22:03
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Fleiri eru andvígir en fylgjandi því að sala áfengis verði leyfð í matvöruverslunum hér á landi. Fólk yngra en 40 ára og þeir sem hæstar hafa tekjur eru hlynntari þessari breytingu.

Margar tilraunir hafa verið gerðar til afnema einkaleyfi ÁTVR á sölu áfengis og hvert frumvarpið á fætur öðru verið lagt fram á Alþingi, það nýjasta núna í haust. Mjög skiptar skoðanir eru um hvort stíga eigi þetta skref.

41 prósent fylgjandi

Samkvæmt nýrri Gallup-könnun eru hátt í 47 prósent þeirra, sem tóku afstöðu, andvíg því að sala á léttvíni og bjór verði leyfð í matvöruverslunum en 41 prósent er hlynnt því. Rúmlega 12 prósent segjast hvorki fylgjandi né andvíg.

Yngra fólk er jákvæðara gagnvart frjálsari verslun með áfengi en rúm 50 prósent fólks yngra en 40 ára segist fylgjandi, en um þriðjungur andvígur.

Ólík afstaða eftir tekjum

Þá er munur á viðhorfi fólks eftir fjölskyldutekjum. Þeir sem hafa 1.250 þúsund krónur eða meira í mánaðartekjur eru lang jákvæðastir. 57 prósent þeirra styðja sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum. Andstaðan er hins vegar mest hjá þeim sem eru með 250-399 þúsund í fjölskyldurtekjur á mánuði.

Afstaða fylgir flokkslínum

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru hlynntastir allra sem spurðir voru. 59 prósent þeirra styðja léttvíns- og bjórsölu í matvöruverslunum en aðeins 24 prósent Framsóknarmanna styðja frjálsari verslun með áfengi. Minnstur er áhugi kjósenda Vinstri grænna. 85 prósent þeirra eru á móti því að matvöruverslanir fái að selja léttvín og bjór.

Andstaða við sölu sterks áfengis

Nýjasta frumvarpið snýst ekki bara um að leyfa sölu á léttvíni og bjór heldur einnig sölu á sterku áfengi. Sterka vínið yrði samkvæmt frumvarpinu geymt afmarkað frá annarri söluvöru á bak við afgreiðsluborð eða í sérrými innan verslunar.

Miðað við könnun Gallup er hins vegar mun minni áhugi meðal landsmanna á að leyfa sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum. 67 prósent segjast vera á móti því, 21 prósent er fylgjandi en 12 prósent segjast hvorki með né á móti. 

Rakel Þorbergsdóttir
Fréttastofa RÚV