Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Minni yfirvinna frekar en styttri vinnuvika

08.02.2018 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins vill frekar leggja áherslu á fækkun yfirvinnutíma við gerð kjarasamninga, fremur en styttingu vinnuvikunnar. Það sé leiðin til að koma á jafnvægi milli vinnu og heimilislífs.

Reykjavíkurborg og BSRB kynntu í gær stækkun tilraunaverkefnis frá árinu 2015 um styttingu vinnuvikunnar en gert er ráð fyrir að fjórðungur allra starfsmanna borgarinnar vinni í vor færri stundir á viku.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í hádegisfréttum RÚV að stytting vinnuvikunnar yrði eitt helsta baráttumál félagsins við gerð næstu kjarasamninga. Kjaramálanefnd VR hefur að undanförnu kortlagt styttinguna og gert skýrslu um hvernig best væri að útfæra hana innan stéttarfélagsins. 

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að hingað til hafi áherslur launþega verið á að hækka laun, fremur en að stytta vinnuvikuna.

„Vandinn sem við erum að reyna að takast á við varðar jafnvægi milli vinnu og heimilislífs. Ég hefði haldið að við ættum þá frekar að beina sjónum okkar að heildarvinnutíma, það er að segja dagvinnutíma og yfirvinnu, og reyna að draga úr yfirvinnu jöfnum skrefum. Það held ég að sé eðlilegri leið til að stytta heildarvinnuvikuna,“ segir Halldór.

Að mati Halldórs er lykillinn að jafnvægi milli vinnu og heimilislífs þannig færri yfirvinnutímar.

„Og ég held að það sé lang eðlilegast að við byrjum á því að draga úr yfirvinnunni áður en við förum að hreyfa við dagvinnunni. Við sjáum þetta nefnilega í alþjóðlegum samanburði. Fimmtán prósent  af heildarlaunagreiðslum á íslandi má rekja yfirvinnu, en í Danmörku er það rétt um eitt prósent. Þannig að það er augljóst sóknarfæri þar, sem skilar sér í styttri heildarvinnuviku, sem á að vera sameiginlegt markmið okkar allra.“

Fréttin hefur verið uppfærð.