Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Minni virkni í Bárðarbungu en undanfarin ár

02.12.2019 - 12:47
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Dregið hefur úr skjálftavirkni í Bárðarbungu í nótt og það sem af er morgni eftir að skjálftahrina gekk þar yfir í gærkvöld. Jarðskjálfti, 3,8 að stærð, varð í norðaustanverðri Bárðarbunguöskjunni í gærkvöld. Um það bil mínútu áður mældust tveir skjálftar á svipuðum slóðum af stærðinni 3,0. Samtals hafa mælst 19 skjálftar í öskjunni síðan í gærkvöld.

Undanfarnar vikur hafa reglulega komið skjálftahrinur í Bárðarbungu en virknin á þessu ári hefur verið heldur minni en síðustu ár. 

Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að engin merki séu um gosóróa í Bárðarbungu. Hann segir að frá því að síðast gaus í Bárðarbungu árið 2015 hafi kvika verið að safnast upp í öskjunni sem sé alvanalegt í virkri eldstöð.

Hefur haft hljótt um sig 2019 miðað við undanfarin ár

Einar Bessi segir að heldur rólegra hafi verið í Bárðarbungu á þessu ári en undanfarin ár. Skjálftavirkni hafi verið talsvert meiri á árunum 2015 og 2016. Frá því að gosinu lauk hafa um 200 skjálftar yfir þremur mælst í Bárðarbungu. Það sem af er þessu ári hafa skjálftar yfir þremur verið 19 talsins, þar af sex stærri en 4,0 og sá stærsti 4,6. Til samanburðar mældust 32 skjálftar stærri 3,0 árið 2018, þar af sjö stærri en 4,0 og tveir stærstu skjálftarnir 4,9 að stærð. 

Víðáttumesta eldstöð landsins

Á vefnum eldgos.is segir að Bárðarbunga í Vatnajökli sé stór og öflug megineldstöð. Er hún jafnframt víðáttumesta eldstöð landsins, talin vera nálægt 200 kílómetra löng og allt að 25 kílómetra breið. Eldstöðin er hulin ís og í henni leynist gríðarmikil jökulfyllt askja. Önnur megineldstöð er í kerfinu, það er Hamarinn.  Vegna þess hve fjarri Bárðarbunga er byggðu bóli var fremur lítið var vitað um eldstöðina lengi vel. Smám saman varð þó ljóst að undir þessari miklu íshellu í norðvesturjaðri Vatnajökuls leyndist eitt öflugasta og hættulegasta eldfjall Íslands. Hæsti blettur Bárðarbungu er í 2009 metra hæð og hún er því næsthæsta fjall landsins.

Askjan í Bárðarbungu er um 70 ferkílómetrar, hún er allt að 10 kílómetra breið og um 700 metra djúp. Umhverfis hana rísa barmarnir í allt að 1850 metra hæð en botninn er víðast í um 1100 metra hæð.  Askjan er algjörlega jökulfyllt.

Bárðarbunga gaus síðast 2014 

Eldgosin hófust aðfaranótt 29. ágúst 2014 og stóðu í næstum hálft ár. Frá þeim kom mesta hraun sem runnið hefur frá Skaftáreldum og eru þau með stærri hraungosum á Íslandi á sögulegum tíma.

Atburðarásin sem leiddi til eldgossins í Holuhrauni hófst með jarðskjálftahrinu í Bárðabungu um miðjan ágúst 2014. Hundruð skjálfta voru skráðir á hverjum sólarhring og sá stærsti varð 26. ágúst, 5,7 að stærð. Hraungos í Holuhrauni hófst svo 29. ágúst. Þrátt fyrir að það hafi einungis staðið í fáeina klukkutíma var það forboði frekari tíðinda.

40 metra þykkt hraun myndaðist

Aðfaranótt 31. ágúst hófst svo mun stærra gos í Holuhrauni. Gosið náði hámarki á fyrsta degi en þá gaus úr rúmlega 1.500 metra langri gossprungu. Kvikustrókar risu í um fimmtíu til hundrað metra hæð þegar mest gekk á. Skilgreind goslok voru svo 28. febrúar 2015, um hálfu ári síðar.

Hraunið sem myndaðist í gosinu er um fjörutíu metrar að þykkt þar sem það rís hæst. Meðalþykkt hraunsins er um tíu til fjórtán metrar og þekur það um 85 ferkílómetra lands. Rúmmál hraunsins er um 1,4 rúmkílómetrar.