Minni samdráttur en búist var við

11.01.2020 - 17:14
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Rúm 14% fækkun í komu ferðamanna til landsins er minni heldur en búist var við. Ferðamálastjóri segir jafnvel mega búast við lítils háttar samdrætti áfram. Hagtölur hafi sýnt að efnahagsleg áhrif þessa samdráttar séu minni en þessi 14% gefi til kynna.

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru tæplega tvær milljónir árið 2019 eða um 329 þúsund færri en árið 2018, samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Fækkunin nemur 14,2%. Þetta er í fyrsta sinn á níu ára tímabili sem ferðamönnum fækkar. Þrátt fyrir það er árið þriðja fjölmennasta ferðamannaárið frá upphafi talninga.  

Minni samdráttur en búist var við

Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri, segir marga hafa átt von á meiri samdrætti vegna þess að markaðshlutfall Wow var það mikið. Það að svo fór ekki megi rekja til þess að Icelandair breytti sætaframboði sínu og meira fór til ferðamanna á leið til landsins.

Skarphéðinn segir jafnvel mega gera ráð fyrir lítils háttar samdrætti áfram, það þurfi þó ekki að hafa mikil áhrif. „Það sem skiptir fyrst og fremst máli er hverjir eru að koma, hversu lengi þeir dvelja og hversu víða þeir fara, frekar heldur en hausafjöldinn“. Hagtölur hafi sýnt að efnahagsleg áhrif þessa samdráttar séu minni en þessi 14% gefi til kynna þar sem fækkunin sé fyrst og fremst meðal ferðamanna sem dvelja skemur.

Mesta fjölgun í Kínverjum

Mest er fækkunin meðal Bandaríkjamanna, um 230 þúsund. Bandaríkjamenn voru samt sem áður fjölmennasti hópurinn eða um 464 þúsund. Kínverjum fjölgaði um 11% og er gert ráð fyrir að þeim fjölgi áfram.

„Núna á þessu ári er áformað beint flug milli Íslands og Kína og það mun auðvitað hafa einhver áhrif. Það er engin ástæða til að ætla annað en að aukning verði í fjölda kínverskra ferðamanna og ferðamanna frá þessum heimshluta“ segir Skarphéðinn.