Það sem hefur vakið sterkust viðbrögð er það sem virðist vera breytt afstaða til svokallaðrar off-venue dagskrár, óopinberrar, sjálfssprottinnar og yfirleitt ókeypis hliðardagskrár hátíðarinnar. Aðstandendur Airwaves vilja meina að hliðardagskráin sé farin að hafa áhrif á miðasöluna á sjálfa hátíðina. Eins og oft með stórar lífverur skapar Iceland Airwaves mikið rými í kringum sig. Á baki hennar og í kringum kviknar líf, sjálfsprottið samlífi. Hátíðin hefur alltaf verið hálfgerð bransahátíð og laðað að sér fólk úr alþjóðlega tónlistarbransanum, útgáfufyrirtæki, hátíðarhaldara, bókara, blaðamenn og svo framvegis. Þannig hefur hátíðin verið tækifæri fyrir íslenska listamenn til að láta taka eftir sér. Þetta gerir það að verkum að hljómsveitir leggja mikið upp úr frammistöðu sinni á hátíðinni, og vilja gjarnan spila sem oftast.
Snemma fóru því að spretta upp hliðarviðburðir, skipulagðir af tónlistarmönnunum sjálfum, fyrst á þeim tíma þegar engir opinberar tónleikar voru í gangi yfir daginn, áður en tónleikakvöldin hófust. Samkvæmt Tímarit.is birtist hugtakið, off-venue, í fyrsta skipti í íslenskum prentmiðlum árið 2005 en varð hratt og örugglega að áberandi hugtaki í umræðu um hátíðina næstu árin.
Tónleikar voru haldnir á kaffihúsum, á börum og í verslunum, söfnum, galleríum og jafnvel elliheimilum. Þar var oft hægt að sjá styttri, órafmagnaða, jafnvel innilegri tónleika hjá íslenskum og erlendum hljómsveitum sem voru að spila á hátíðinni, en þarna voru líka óþekktari og nýrri hljómsveitir sem ekki komust að á opinberu hátíðinni. Þetta mikla tónlistarlíf í miðborginni er í huga margra orðinn nauðsynlegur hluti af Iceland Airwaves.
Einkaleyfi og breytt verð
Í byrjun október var greint frá því í fjölmiðlum að hátíðin hafi nú sótt um einkaleyfi á vörumerkinu Iceland Airwaves Off Venue og talað um að ekki verði hægt að halda off-venue viðburði með nafninu Iceland Airwaves án samþykkis Senu - það sem virðist vera nokkur mótsögn, óopinberir tónleikar utan dagskrár með leyfi þeirra sem stýra opinberu dagskránni.
Þá hefur komið fram að ef tónleikastaðir vilja fá að nota nafnið og vera með dagskrá hátíðarinnar þurfi þeir nú að greiða 500 þúsund krónur - en þurftu að greiða 60 þúsund síðustu ár. Þar að auki vilji Sena fá hluta af drykkjasölu á stöðunum.
Hliðardagskráin má ekki vera samkeppni
Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves, segir nýja rekstraraðila ekki vera að skera upp herör gegn off-venue tónleikum yfir Airwaves-helgina. „Við elskum off-venue staði og dagskrána. Við viljum að það sé sem mest og fjölbreyttust off-venue dagskrá yfir daginn, en það er grundvallaratriði að hún sé ekki í samkeppni við okkur,” segir Ísleifur.
Einkaleyfisumsóknin segir hann að sé aðeins formsatriði sem breyti í raun engu, það hafi alltaf þurft leyfi hátíðarinnar til að kalla tónleika Iceland Airwaves off-venue og fá að vera með í dagskrárbæklingi hátíðarinnar.
Undanfarin ár hefur miðasala á Iceland Airwaves ekki gengið sem skyldi og 60 milljón króna tap verið á hátíðinni síðustu tvö ár. Ísleifur segist telja ástæðurnar séu að hluta til í auknu framboði á tónlistarhátíðum og viðburðum á Íslandi, en einnig í „sprengingu” í off-venue tónleikum á meðan opinber dagskrá Iceland Airwaves stendur yfir.