Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Minni mengun en ella vegna tímasetningar

20.07.2015 - 18:55
Mynd með færslu
 Mynd: Ómar Ragnarsson - RÚV
Tímasetning gossins í Holuhrauni og veðrið urðu til þess að mengun frá eldstöðvunum var minni en búst mátti við. Ellefu milljón tonn af brennisteinsdíoxíði bárust frá hrauninu um allt land og til Evrópu.

Stór hópur rannsóknamanna innlendir og erlendir safnaði upplýsingum um gosið í Holuhrauni í þá sex mánuði sem það stóð. Grein eftir þá birtist í dag í nýju tímariti European Association of Geochemistry letters, sem samtök jarðefnafræðinga í Evrópu hafa sett á laggirnar.

Mengunin frá gosinu fannst um allt land og var víða dögum og jafnvel vikum saman yfir leyfilegu marki. Brennisteinstvíoxíð er hættulegt heilsu manna ef það fer yfir 350 míkrógrömm í einum rúmmetra af lofti þegar mælt er í eina klukkustund. Mengun mældist yfir þessum mörkum í fimm til tíu daga yfir öllu landinu, 10 til 20 daga fyrir norðan og austan og 20 til 40 daga við eldstöðvarnar og þar í kring.

Mengunin fór líka yfir 350 míkrógrömm á rúmmetra á tveimur stöðum á Írlandi. Hún varð líka ansi mikil í Hollandi, Belgiu og Bretlandi og í austurísku Ölpunum.

 

Einn tíundi af losun Skaftárelda
„Gasið sem sauð út úr þessari kviku þegar það var að kólna er um 11 milljónir tonna,“ segir Sigurður Reynir Gíslason jarðefnafræðingur hjá Raunvísindastofnun HÍ. „Það segir náttúrlega fólki ekki hvað það mikið en þetta er meira heldur en allir evrópubúar með öllum sínum aðgerðum losuðu árið 2011 yfir allt árið.“

Það er um 10% af allri losun í heiminum á einu ári og einn tíundi af því sem losnaði í Skaftáreldum. Þá létust um tíu þúsund manns hér á landi og gosið hafð áhrif á tug þúsundir manna í Evrópu. Um tíma í vetur óttuðust vísindamennirnir hið versta því þegar brennisteinstvíoxíð breytist í brennisteinssýru myndast blá móða sem er hættuleg og móðuharðindin draga nafn sitt af.

„Gosið byrjar þarna í lok ágúst og stendur yfir í haustið og svo inn í veturinn og er í myrkrinu við þurrar aðstæður. Þá hvatar sólarljósið oxun gassins yfir í brennisteinssýru þannig að við gátum ekki verið heppnari með tímasetninguna á gosinu,“ segir Sigurður Reynir. „Einnig var líka mjög vindasamt sem tætti mökkinn í sundur, dreifði honum og minnkaði styrkinn og flutti mökkinn hratt út af landinu mest til norðurs áttina að meira myrkur.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV