Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Minni líkur en meiri á árás hér á landi

23.05.2017 - 18:40
Mynd með færslu
Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri Mynd: Freyr Arnarson - RUV
Ríkislögreglustjóri segir ekki ástæðu til að hækka viðbúnaðarstig hér á landi vegna árásarinnar í Manchester. Líkur á árás hér á landi séu minni en meiri þó ógnin færist sífellt nær.

„Við erum með ákveðnar verkfallsreglur hér um að ef að þá hittast hér sérfræðingar Ríkislögreglustjóra og fara saman yfir málið. Það var það sem gerðist hér í morgun, þeir komu saman, mátu stöðuna og komust að þeirri niðurstöðu að það væri ekki ástæða til að hækka viðbúnað íslensku lögreglunnar en hafa allan vara á“ segir Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri um viðbrögð hérlendis við árásinni í Manchester. Sérfræðingar embættisins hafa því fylgst með þróun mála í Bretlandi í dag og aflað upplýsinga frá bresku lögreglunni um stöðu rannsóknarinnar, eftir því sem unnt er.

Óbreyttur viðbúnaður frá 2015

„Eftir árásirnar í París hækkuðum við okkar hættustig og höfum verið á því stigi síðan. Við höfum ekki lækkað það en þessir atburðir gefa okkur heldur ekki tilefni til að hækka það en við erum að fylgjast mjög náið með og ef eitthvað breytist þá þurfum við hugsanlega að auka okkar viðbúnað. Eru líkur á einhvers konar árás hér á landi? Við höfum talið að líkurnar væru minni en meiri en við höfum alla tíð bent á að þessi ógn færist ansi nær“ segir Haraldur og vísar meðal annars til árása í Svíþjóð og víðar á norðurlöndum, í Bretlandi, Frakklandi og víðar. Hann er sorgmæddur og sleginn yfir árás sem þessari sem beinist gegn börnum og ungu fólki: „Þetta snertir mann, óneitanlega. Maður sér fyrir sér fjölskyldur, unglinga, börn sem hafa hlakkað til að fara á þessa tónleika og svo koma þau ekki heim aftur. Maður hlýtur að hugsa til þess fólks sem eru ættingjar og vinir með samúð en auðvitað er þetta slíkur hryllingur að maður getur ekki sett sig í þessi spor.“
 

 

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV