Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Minni launahækkanir í ferðaþjónustu

14.12.2016 - 18:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nítján þúsund störfuðu við ferðaþjónustu í fyrra. Laun í ferðaþjónustu hækkuðu minna en laun almennt á árunum 2010 til 2014, þetta kemur fram í skýrslu sem Háskólinn á Bifröst vann fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Almennt hækkuðu laun um 28% en laun í ferðaþjónustunni um 24%.

 

Þeir sem hæstu launin höfðu á tímabilinu voru þeir sem starfa við farþegaflutninga en laun þeirra sem vinna á veitingastöðum eru lægst. Þá eru mánaðarlaun þeirra sem störfuðu tíu mánuði eða fleiri á ári í ferðaþjónustu áberandi hærri en þeirra sem störfuðu einungis hluta úr ári. Hæstu launin fengu þeir sem unnu við ferðaþjónustu á Austurlandi og í Reykjavík en þeir sem unnu á Vestfjörðum fengu minnst í launaumslagið.

Umtalsverður óútskýrður launamunur er milli kynjanna. Karlar eru með um 20% hærri laun en konur innan ferðaþjónustunnar, miðað við launaupplýsingar 2014. Mestur er launamunurinn í flokki ferðaskrifstofa og skipuleggjenda, þar eru karlar með um 50% hærri laun en konur. Minnsti munurinn er í flokki hótela og gistiheimila. Þar eru konur með um 0,5% hærri laun en karlar. Alls eru konur 70% starfsmanna í þeim flokki.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV