Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Minni hæfiskröfur á þingi en í stjórnsýslu

24.04.2015 - 19:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lög hindra ekki þingmann í að fjalla um makrílfrumvarp sjávarútvegsráðherra þó að útgerðarfyrirtæki eiginkonu hans fengi makrílkvóta ef frumvarpið verður að lögum. Þetta er mat lagaprófessors. Kröfur um hæfi þingmanna eru mun minni en í stjórnsýslunni.

Atvinnuveganefnd fjallar nú um frumvörp um veiðigjald og stjórnun makrílveiða. Einn nefndarmanna, Páll Jóhann Pálsson, þingmaður Framsóknarflokksins, er í þeirri stöðu að útgerðarfyrirtæki eiginkonu hans, fengi makrílkvóta ef makrílfrumvarpið verður að lögum. Páll sagði í hádegisfréttum að hann væri ekki vanhæfur vegna þessa, meðal annars þar sem hann teldi ekki mikil verðmæti í þessum kvóta.

Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti, segir þingmenn í allt annarri stöðu en stjórnvöld og dómara, þar sem þeir setja almennar reglur sem gilda um alla, líka þá sjálfa. „Það er ekkert sem beinlínis víkur að hæfi þingmanna nema reyndar ein regla þingskaparlaga þar sem segir að þingmaður megi ekki greiða atkvæði uym fjárveitingar til sjálfs sín. En þetta er reyndar mjög þröng regla og myndi eftir því sem ég hef séð af þessu máli ekki eiga við um þessar aðstæður.

Þetta verði því alltaf að vera mat þingmannsins sjálfs. „Það er undir honum sjálfum komið hvort hann metur það eðlilegt að taka þátt í atkvæðagreiðslunni að ekki. Það er semsagt siðgerðisleg krafa fyrst og fremst.“

Og jafnvel þó að þingmaðurinn greiddi atkvæði um fjárveitingu til sjálfs sín, hefði það ekki áhrif á gildi laganna. „Vegna þess að þessi regla kemur fram í þingskaparlögum, þetta er ekki skilyrði samkvæmt stjórnarskrá fyrir því að lagasetning taki gildi.“

Ef vafi leikur á vanhæfi þingmanns er það forseti þingsins sem sker úr um það. Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis er staddur erlendis og hafði ekki kynnt sér málið þegar fréttastofa náði tali af honum.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV