Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Minjasvæðið Skriðuklaustri opnað

19.08.2012 - 19:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Minjasvæði við Skriðuklaustur í Fljótsdal var opnað formlega í dag. Það markar lokin á einum mesta fornleifauppgreftri síðari ára en rannsóknir á miðaldraklaustrinu á Skriðu hafa staðið yfir í heilan áratug.

Fjölmenni var samankomið við Skriðuklaustur í Fljótsdal í dag á svokölluðum Fljótsdalsdegi en hann er endahnúturinn Ormsteiti, hátíð héraðsbúa. Í dag var tilefnið ærið enda. Menntamálaráðherra opnaði formlega minjasvæðið og uppbyggðar rústir hins gamla munkaklausturs á Skriðu.

Klaustrið hætti starfsemi upp úr siðaskiptum og í tilefni fimmhundruð ára vígsluafmælis klausturkirkjunnar var Lúters/kaþólsk guðsþjónustu í rústum kirkjunnar þar sem piskup Íslands predikaði. Hún segir klaustrið geyma mikilvæga kafla ekki bara í trúarsögu Íslands heldur líka kirkjusögu og sögu landsins. 

„Hér fór fram mjög merkileg starfsemi. Hérna var Ágústínusaregla og munkarnir lögðu ekki aðeins rækt við að rannsaka ritningarnar heldur sinntu þeir líka samfélagsþjónustu, fátækum og svo framvegis," segir Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.  

Í sumar var byggð góð aðstað til að sýna klaustrið sem einnig var einskonar spítali og er nú hægt að ganga um rústirnar og fræðast um starfsemi í einstaka hlutum klaustursins. Þá er komin út bók um rannsóknirnar. Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur hefur stýrt rannsókunum sem eru þær umfangsmestu á síðustu árum. 

„Það er alveg ótrúlega að þessum rannsóknum skuli vera lokið. Hér við höfum unnið að þessu sleitulaust í áratug. Byggingarnar eru miklu stærri og flóknari heldur en við bjuggumst við. Ég held að þetta sé ein flóknasta bygging sem hefur verið grafin upp frá miðöldum hér á Íslandi. Þetta er líka nyrsta klaustrið sem hefur veirð grafið upp í Evrópu og það eina á Íslandi þannig að þetta er mikilvægur áfangi fyrir okkur í forneifafræðinni," segir Steinunn.