Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Minjar um óþekkta landnámsmenn á Ströndum

16.08.2018 - 20:30
Fornleifafræðingar rannsaka nú landnámsminjar í Sandvík á Ströndum en engar skriflegar heimildir eru til um landnámsmenn á þessum stað. Fornleifafræðingur segir mikilvægt að safna upplýsingunum áður en minjarnar hverfa fyrir ágangi sjávar.

Bein frá tíma landnáms

Ábúandi rakst fyrir tilviljun á hauginn á göngu fyrir nokkrum árum. „Það stóðu bein hérna út úr bakka, þar sem sjórinn er að grafa sig inn hérna í bakkann. Þetta var það mikið af beinum að við fórum að safna þessu og halda þessu til haga, því sem hrundi niður úr bakkanum,“ segir Bergsveinn Birgisson, rithöfundur og doktor í norrænum fræðum. Hann dvelur á sumrin í næsta nágrenni. Þau fengu síðar beinasérfræðing til að skoða beinin sem sá að þau voru mjög gömul. „Hún sá strax þarna bæði svínabein og geitabein og rif úr rostung eða einhverju stóru dýri,“ segir Bergsveinn. Aldursgreining leiddi í ljós að bein úr haugnum er frá landnámstíma, 850-910. Það kveikti áhuga alþjóðlegs teymis fornleifafræðinga sem hafa í vikunni grafið út hauginn og annan til.

Minjar sem hverfa í hafið

„Í öskuhaugnum er náttúrlega það sem fólkið sem hérna bjó henti og við rótum í ruslinu þeirra og reynum að skilja líf þeirra aðeins betur,“ segir Lísabet Guðmundsdóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands. Fornleifafræðingarnir keppast við að safna upplýsingum áður en minjarnar hverfa í hafið.  „Og það er bara svo mikilvægt að passa upp á þessar minjar og sérstaklega svona sjávarútvegsminjar sem við vitum ofsalega lítið um,“ segir Lísabet.

Sama á borðum í 11 hundruð ár

Á laugardaginn stendur til að kynna uppgröftinn á málþingi í Hveravík á Ströndum og verður hann settur í samhengi við strandmenningu við Norður-Atlantshaf. „Það eru engar sögusagnir um að það hafi nokkru sinni verið fólk hér. Og hitt er að Landnámabók segir ekki frá neinum landnámsmanni hér í Sandvík,“ segir Bergsveinn. Bergsveinn segir staðinn heppilegan til sjóðs, búsældarlegan og vel valinn. Ellefu hundruð árum síðar bjuggu amma hans og afi þessum sama stað og miðað við beinin í öskuhaugnum hafa þau búið við svipaðan kost: „Fiskur og fugl sem er nóg af hér og svo eitt og eitt stærra gripabein hér á milli. Það er náttúrlega mjög skemmtilegt að sjá að menn eru að nýta landið á sama hátt í kannski svona langan tíma eins og upp undir ellefu hundruð ár.“

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður