Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Minjar frá elstu tíð við Stjórnarráðið

08.10.2019 - 19:00
Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson / RÚV
Fornleifauppgröftur hófst á einum fjölfarnasta stað landsins, Stjórnarráðsreitnum í Reykjavík, fyrir hálfum mánuði. Þegar hafa komið í ljós leirbrot en þess er vænst að minjar frá elstu tíð komi í ljós. 
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV

Hann er áberandi blái veggurinn, sem risinn er við Bankastrætið, með upplýsingum um uppgröftinn og nýju bygginguna, sem á að reisa bak við Stjórnarráðshúsið, og á að hýsa hluta af starfsemi forsætisráðuneytisins. 
Þar eru líka gluggar svo hægt sé að fylgjast með fornleifafræðingum að störfum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Vala Garðarsdóttir.

„Við eigum nú von á að finna merki og ummerki um kannski 25 eða 30 byggingar af því að samkvæmt heimildum þá stóðu hér allmörg hús á 18. og 19. öld. Svo hafa einnig fundist leifar af eldra mannvirki hér undir Stjórnarráðinu þegar að það var tekið í gegn 1998. Þá fundust leifar af byggingu sem var með gjóskulagi frá 1226. Þannig að það er ekkert ólíklegt að það komi líka minjar frá elstu tíð,“ segir Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV

Ágætis heimildir eru til um reitinn eins og byggingarúttektir á húsunum þar frá 1854. Byrjað var að byggja Stjórnarráðshúsið 1765 og þá var það tukthús. 

„Hér er náttúrulega svo rík saga og sem segir okkur svo margt. Við ætlum að reyna að skrásetja hana eins vel, bæði með heimildirnar og svo fornminjar. En það sem að kannski mun koma á óvart og það er það sem er frá Arnarhólslandinu sjálfu.“

Nyrsti hluti lóðarinnar tilheyrði Arnarhólslandi og í uppgreftri 1993 komu í ljós minjar frá elstu tíð þannig að á reitnum gætu komið í ljós útihús eða stærri byggingar frá þeim tíma. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV

„Maður býst við svona flestu, sérstaklega á þessum stað. En ég hef nú oft fengið spurningar um það hvort maður muni finna svona kannski fangakúlu eða keðjur eða eitthvað en ég veit lítið með það. En það eru þegar komnir áhugaverðir grípir frá 18. og 19. öld.“

Hvaða gripir eru það?

„Það er mjög mikið bara, mikið brotin leirker, gler, lyfjaglös, viður og mikið af tilhöggnu grjóti, sem að menn hafa reist hér í grunna á byggingum og fleira.“

Fyrri áfanga uppgraftarins, Bankastrætismegin, lýkur í janúar og seinni áfanga nær bílastæðunum og Hverfisgötu fyrir næsta haust. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Vegfarendur virða fyrir sér uppgröftinn