Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„Mín ósk var að ganga tafarlaust til kosninga“

07.04.2016 - 10:45
Mynd með færslu
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis. Mynd: RÚV
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis, kveðst ekki vita hvaða ráðherraembætti Lilja Alfreðsdóttir tekur við. Vigdís segir að sér lítist vel á Lilju, hún sé afar fær. Vigdís viðurkennir að hún hafi orðið hissa þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fráfarandi forsætisráðherra nefndi nafn Lilju sem ráðherra. „Ég tala nú bara fyrir mig en ég varð hissa.“

Vigdís segir að hún hafi verið búin að gera sér grein fyrir því að hún yrði ekki ráðherra þegar þingflokksfundur Framsóknarflokksins hófst í gærkvöld. „Það var ekki búið að tala við mig,“ segir Vigdís.

Þrír oddvitar ekki ráðherrar
Hún bendir á að oddvitar stjórnmálaflokka hafi ávallt verið álitnir „ráðherrakandidatar,“ eins og hún kemst að orði. Eftir ríkisráðsfundi í dag verði staðan sú að Framsóknarflokkurinn verði með oddvita í þremur kjördæmum utan ríkisstjórnar. Þetta eru Reykjavíkurkjördæmi suður, Reykjavíkurkjördæmi norður og Norðausturkjördæmi eftir að Sigmundur Davíð lætur af embætti.  „Ég held að ég geti fullyrt að þetta sé einsdæmi í sögu flokksins að Framsókn sitji í ríkisstjórn og og þrír oddvitar séu utan ríkisstjórnar, að minnsta kosti eftir breytingu á kjördæmaskipan.“

Vildi kosningar strax
Vigdís segist þó ekki hafa tekið til máls á þingflokksfundinum í gær um að hún yrði ráðherra. „Mín ósk var að ganga tafarlaust til kosninga. Þingmenn mega aldrei verða hræddir við að mæta kjósendum. Ég talaði fyrir því innan þingflokksins að ég taldi það besta í stöðunni.“

Við nokrum spurningum fréttamanns svaraði Vigdís: „Þú verður að spyrja strákana sem stjórna Framsóknarflokknum.“

 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV