Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Milljónum farþega stefnt í hættu

12.02.2020 - 21:28
epa07429015 A Southwest Airlines Boeing 737-7H4 begins to taxi at Baltimore Washington International Airport in Baltimore, Maryland, USA, 11 March 2019. The crash of an Ethopian Airlines 737 Max 8 on 10 March 2019 has caused Boeing and airline stock to fall. The crash killed all aboard and was the second fatal crash of the aircraft model.  EPA-EFE/TANNEN MAURY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Slakt eftirlit af hálfu bandaríska Flugferðaeftirlitsins, FAA, gerði Southwest flugfélaginu kleift að stefna velferð milljóna farþega í hættu. Þetta er niðurstaða rannsóknar bandarísku Samgöngustofnunarinnar. Flugfélagið keypti 88 notaðar flugvélar frá erlendum flugfélögum á árunum 2014 til 2018. Ekki fór fram fullnægjandi úttekt á flugvélunum og því var óljóst hvort þær væru í flughæfu ástandi eða hvort úrbóta væri þörf.

Flugvélarnar 88 voru notaðar í samtals 150 þúsund flugferðum innan Bandaríkjanna án þess að uppfylla flugfærnisskilyrði, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar. Samgöngustofnunin segir að Southwest flugfélagið hafi stefnt 17,2 milljón farþegum í hættu. 

Þetta er enn eitt vandræðamálið fyrir bandaríska Flugferðaeftirlitið. Það hefur sætt gagnrýni fyrir lítið eftirlit með framleiðslu Boeing 737 MAX farþegaþotanna. Í tilfelli Southwest lét eftirlitið sér nægja að taka við samantektargögnum frá Southwest án þess að sjá til þess að ráðist væri í fullnægjandi úttekt á hverri flugvél áður en hún væri tekin í notkun. Eftirlitið hefur síðan þá skipt um mannskap í samskiptum við Southwest og krafist úrbóta.

Rúmu ári eftir að nýjustu vélarnar voru keyptar og sex árum eftir kaupin á fyrstu vélunum er Southwest búið að láta fara heildarskoðun á 80 af 88 flugvélum. Að auki þurfti fyrirtækið að kaupa 3.400 nýjar farangursvigtir þar sem þær gömlu þóttu óáreiðanlegar. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV