Milljarðar í að endurbæta járnbrautakerfið

14.01.2020 - 16:06
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Þýska sambandsstjórnin ákvað í dag að verja sextíu og tveimur milljörðum evra í að nútímavæða járnbrautakerfi landsins. Það er liður í að draga úr mengun í samgöngum. Andreas Scheuer samgönguráðherra greindi frá ákvörðuninni. Hann sagði að jafnframt ætluðu þýsku ríkisjárnbrautirnar Deutsche Bahn að leggja til 24 milljarða evra í enduruppbygginguna.

Samanlögð upphæð nemur yfir 13.100 milljörðum króna. Andreas Scheuer segir að fénu verði einkum varið í að endurnýja úreltan búnað járnbrautanna, bæta aðgengi fatlaðra farþega og gera upp járnbrautarbrýr. Að auki er ætlunin, að sögn Richards Lutz, forstjóra Deutsche Bahn, að bæta stundvísi lestanna. Of seinar lestir eru helsta umkvörtunarefni farþeganna. Hann segir þó að umbæturnar sem gera á geti orðið til þess að erfitt verði að fylgja áætlunum þar til þeim verði lokið.

Stjórnvöld í Þýskalandi tilkynntu í síðasta mánuði að stefnt yrði að því að draga úr loftmengun um fimmtíu og fimm prósent fyrir árið 2030 frá því sem hún var 1990. Liður í því er að fjölga farþegum með járnbrautarlestum á kostnað bíla og flugvéla. Ætlunin er að lækka fargjöld með lestum og hækka skatta á flugfarmiða.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV