Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Milljarðamæringur, fjölmiðlamógúll og flokkaflakkari

Mynd: EPA-EFE / EPA
Michael Bloomberg er ýmist Repúblikani, óháður eða Demókrati. Nú vill hann verða forsetaefni Demókrata og ætlar að eyða áður óþekktum fjárhæðum í þeim tilgangi. Hann bannar fjölmiðlaveldi sínu að fjalla illa um sig og reyndar aðra frambjóðendur Demókrata. Um Donald Trump gegnir öðru máli. Níðskrif um Trump eru vel þegin. Donald Trump fagnar framboði Bloombergs.

Michael Bloomberg er níundi ríkasti maður Bandaríkjanna, fjórtándi ríkasti maður veraldar. Hann var Demókrati en skipti um flokk og var kjörinn borgarstjóri í New York borg fyrir Repúblikana rétt eftir árásirnar á tvíburaturnana 2001. Hann var borgarstjóri í þrjú kjörtímabil, fyrst fyrir Repúblikana en síðar sem óháður. Í fyrra skráði hann sig aftur í Demókrataflokkinn og vill nú verða forsetaframbjóðandi þeirra.

Meteyðsla í kosningabaráttu vestanhafs 

Bloomberg tilkynnti formlega um framboðið á sunnudag og jafnframt um þrjátíu og einnar milljónar dollara auglýsingaherferð í sjónvarpi. Aldrei hefur nokkur frambjóðandi eytt viðlíka upphæð í auglýsingar á einni viku. Barack Obama átti fyrra metið í lokaviku kosningabaráttu sinnar. Bloomberg borgar úr eigin vasa. Milljarðamæringarnir Michael Bloomberg, Tom Steyer og Donald Trump hafa í sameiningu eytt tveimur af hverjum þremur krónum sem eytt hefur verið í kosningabaráttuna til þessa. 

Bannað að skrifa illa um Bloomberg

Bloomberg er óhræddur við að nota eigin fjölmiðla í eigin þágu. Á sunnudaginn sendi yfirritstjóri Bloomberg fréttaveitunnar bréf til tvö þúsund og sjö hundruð blaðamanna fyrirtækisins með þeim fyrirmælum að ekki mætti kafa eftir neinu misjöfnu um Bloomberg sjálfan eða framboð hans. Það má fjalla um kosningabaráttuna sem slíka en enga rannsóknarblaðamennsku um forsetaframbjóðandann og fjölmiðlaeigandann. Reyndar gildir sama fyrirskipun um aðra frambjóðendur Demókrata í forvalinu.

Blaðamenn mega hins vegar áfram beina kröftum sínum og spjótum að Donald Trump. Það er stefna fjölmiðilsins að fjalla ekki með gagnrýnum hætti um eigandann og frambjóðandann Bloomberg eða núverandi samflokksmenn hans í framboði en allt er leyfilegt gagnvart Donald Trump. Bloomberg hefur áður sagt að hann vilji ekki að blaðamenn sem hann borgar laun, skrifi illa um hann. Hann vilji ekki að þeir séu sjálfstæðir eða óháðir.

Milljarðamæringar stýra fjölmiðlum

Milljarðamæringar eiga orðið flesta fjölmiðla. Rupert Murdoch er gamalt og rótgróið dæmi en milljarðamæringar hafa keypt upp fjölmiðla í nafni manngæsku. Jeff Bezos, eigandi Amazon, á Washington Post. Líftæknimógúllinn Patrick Soon-Shiong á LA Times. Stofnandi Salesforce, Marc Benioff, á Time tímaritið. Laurene Powell Jobs, fyrrum eiginkona Steves Jobs á Atlantic og John Henry á Boston Globe og reyndar knattspyrnuliðið Liverpool einnig svo fátt eitt sé nefnt.

Borgar kosningabaráttuna úr eigin vasa 

Fylgi Bloombergs hefur aðeins mælst um tvö prósent í skoðanakönnunum, svo auglýsingaherferð hans þarf að breyta landslaginu ansi mikið. Hann þarf að ná fjögurra prósenta fylgi til að komast í kappræður Demókrata tólfta desember. Bloomberg hefur heitið því að taka ekki við neinum framlögum. Hann ætlar að fjármagna kosningabaráttu sína sjálfur með fimm hundruð milljóna dollara eigin framlagi. Það er brotabrot af auðæfum milljarðamæringsins Michael Bloomberg.