Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Milljarða skattsvikamál felld niður vegna tafa

15.11.2017 - 03:09
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Um 60 mál gegn grunuðum skattsvikurum hafa verið felld niður hjá embætti héraðssaksóknara vegna þess að rof varð í málsmeðferð á meðan beðið var niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu. Mál einstaklinga sem komu fyrir í Panamaskjölunum eru þar á meðal og stór hluti hinna niðurfelldu mála snýst um fólk sem geymdi fé í skattaskjólum erlendis. Kjarninn greinir frá þessu. Í frétt Fréttablaðsins af þessum málum segir að flest tilfellin snúist um íslenska sjómenn sem starfa erlendis.

Þar segir að fyrstu málin hafi verið felld niður fyrir tæpum mánuði, og að búist sé við að fleiri mál af svipuðum toga verði felld niður á næstunni. Alls eru rúmlega 150 skattsvikamál til meðferðar hjá embætti héraðssaksóknara, og skattstofninn sem þar er um að tefla yfir 30 milljarðar króna.

Milljarða sektargreiðslur tapast

Í frétt Kjarnans segir að búið sé að endurákvarða skattgreiðslur á flesta sem til rannsóknar eru. Niðurfelling skattsvikamálanna hefur það hins vegar í för með sér að ekki verður hægt að leggja sektir á þá sem þau mál snúast um. Slík sekt getur verið á milli tvisvar og tíu sinnum hærri en áætlað skattaundanskot. Í málunum 60 sem felld hafa verið niður er skattstofninn í kringum tíu milljarðar. Íslenska ríkið verður því fyrir umtalsverðum búsifjum vegna þessa; búsifjum, sem jafnvel gætu hlaupið á mllljarðatugum.

Haft er eftir Bryndísi Kristjánsdóttur, skattrannsóknarstjóra, að embætti hennar muni óska eftir því að embætti ríkissaksóknara endurskoði ákvörðun héraðssaksóknara um niðurfellingu, að minnsta kosti í hluta málanna.

Margir sjómenn meðal grunaðra

Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að málin nái allt aftur til ársins 2012 og mörg þeirra varði íslenska sjómenn sem unnu hjá íslenskum útgerðum erlendis. Alls snúast 34 þessara 60 mála um tekjur Íslendinga vegna starfa þeirra á erlendri grundu, segir í Fréttablaðinu.

Ástæðan þess að svona er komið málum er sú, að hvort tveggja ákæruvaldið og íslenskir dómstólar voru að bíða eftir niðurstöðu í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar við Mannréttindadómstól Evrópu, og svo enn frekari bið eftir að Hæstiréttur túlkaði þá niðurstöðu. Biðin varð það löng og niðurstaða hæstaréttar á þann veg að héraðssaksóknari telur rofið sem orðið hefur á málsmeðferðinni slíkt, að fella verði málin niður. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV