Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Miklu hagstæðari húsnæðislán

03.06.2015 - 19:14
Mynd: Anton Brink / Ruv.is
Lánskjör á fasteignalánum eru mun betri víða á Norðurlöndunum heldur en á Íslandi. Þegar saman safnast borgar fólk á Íslandi ekki bara meira af lánum sínum í hverjum mánuði. Munað getur tugum milljóna á því hve mikið fólk greiðir til baka yfir allan lánstímann.

Spegillinn fékk upplýsingar um lánakjör hjá nokkrum norrænum bönkum. Hjá Handelsbanken í Finnlandi er hægt að fá lán sem bera 1% til 1,4% vexti. Lánin eru ekki verðtryggð. Óverðtryggð lán hér á landi bera gjarnan 6 - 7,5% vexti en verðtryggð lán 3,6 - 4,0% vexti.

Svíþjóð

Nordea í Svíþjóð veitir lán sem hafa að meðaltali 1,59% vexti, án verðtryggingar. Vextirnir eru breytilegir og ráðast meðal annars af stýrivöxtum og kjörum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Vextir eru raunar sérstaklega lágir í Svíþjóð um þessar mundir þar eð stýrivextir sænska seðlabankans eru neikvæðir um fjórðung úr prósenti. Vextir á fasteignalánum gætu því hækkað í framtíðinni.

Að öllu jöfnu myndi sá sem tekur lán til 30 ára, hjá Nordea í Svíþjóð, upp á 1.600.000 sænskar krónur greiða 7.182 krónur af því á mánuði. Í íslenskum krónum samsvarar það 115 þúsund króna afborgun á mánuði af láni upp á tæpar 26 milljónir. Alls myndi viðkomandi þurfa að greiða til baka tæpar 38 íslenskar milljónir af láninu. Margfeldið á upphaflega láninu er því 1,48. Við þetta bætist að fólk fær 30% af vöxtum á húsnæðislán endurgreidd í formi skattaafsláttar.

Danmörk
Í Danmörku fær fólk einnig skattaafslátt út á vaxtagreiðslur vegna húsnæðiskaupa. Hægt er að fá lán til 30 ára á föstum vöxtum hjá Danske bank, og eru vextirnir þá 2,5%. Sá sem tekur 1,6 milljóna fasteignalán (32 milljónir íslenskra króna) á þessum kjörum í Danmörku myndi greiða alls tæpar 2,6 danskar milljónir til baka, eða 51 íslenska. Upphaflegt lán er þannig endurgreitt 1,6 sinnum.

Mun ódýrara er að vera með breytilega vexti. Lægstu vextir hjá Danske bank nú um stundir eru 0,01 prósent. Með þeim yrði mánaðarleg greiðslubyrði, með lántökukostnaði, 5.720 danskar krónur, af 1.600.000 þúsund króna láni. Í íslenskum krónum greiðir viðkomandi 113.000 krónur á mánuði af láni upp á tæpar 32 milljónir króna. 
Lántakandinn greiðir alls tæpar 37 milljónir til baka að því gefnu að hinir lágu vextir haldist óbreyttir allan lánstímann, eða 1,17 sinnum upphaflegu fjárhæðina.

Ísland
Á Íslandi er greiðslubyrði af 30 milljóna láni nálægt 180.000 krónum á mánuði, sé tekið verðtryggt lán með 3,7% vöxtum til 30 ára. Miðað við meðalverðbólgu síðustu tíu ára þarf lántaki að endurgreiða 112 milljónir - 3,7 sinnum upphaflega lánsfjárhæð. Ef minna er greitt á mánuði, tekið jafngreiðslulán, verða heildargreiðslur hærri, um 132 milljónir af 30 millljóna láni.

Sé lánið óverðtryggt með 6% vöxtum er mánaðarleg greiðsla 250 þúsund krónum; um tvöfalt hærri upphæð en í Danmörku eða Svíþjóð. Alls þyrfti lántakinn að endurgreiða 57 milljónir, eða 1,9 sinnum upphaflegu lánsfjárhæðina.

 

Upphaflega var misreiknaður kostnaður við 30 ára lán á Íslandi. Sagt var að greiðslubyrði af 30 milljón króna láni, með 3,7% vexti til 30 ára, væri 190.000 krónur á mánuði og heildargreiðslur miðað við meðaltalsverðbólgu síðustu 10 ára, yrði alls 72 milljónir. Þetta var misreiknað.

 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV