Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Miklir möguleikar í vetrarferðamennsku

06.09.2013 - 19:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Norskur ferðamálafræðingur segir mikla möguleika á Íslandi fyrir vetrarferðamennsku og að hægt sé að selja norðurljósin á marga vegu. Í Norður-Noregi hafi tekist að gera veturinn að háannatíma í ferðamennsku.

Hittumst!, stærsta innlenda kaupstefna íslensku ferðaþjónustunnar fór fram í dag. Meðal fyrirlesara á kaupstefnunni var Trond Overas ferðamálafræðingur og forstöðumaður Visit Tromsö. Hann á að baki langa reynslu í að markaðssetja vetrarferðamennsku, á Svalbarða og sérstaklega í Trömsö og víðar í Norður-Noregi. Hann segir að þar hafi áherslan verið lögð á norðurljósin og eiginlega mætti segja að þar á bæ hafi menn nánast slegið eign sinni á norðurljósin. Til séu ýmsar leiðir til að selja þau. Hann hefur fylgst með markaðssetningu Íslands í þessum efnum og segir hana afar áhugaverða. Hann hafi séð kynningarefni um Ísland í flugvélum og fleira og segir ljóst að Ísland hafi upp á margt að bjóða í þessum efnum. Í Norður-Noregi séu það norðurljósin, en á Íslandi sé svo margt annað sem laðar ferðamenn að yfir vetrartímann.

Trond segir mikla framtíðarmöguleika í vetrarferðamennsku. Hann segir að í Norður-Noregi og einkum á svæðinu í kringum Trömsö hafi orðið mikil breyting og að á vissan hátt megi segja að minnsti annatíminn, sem sé vetrartíminn, sé orðinn háannatími.