Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Miklir möguleikar í skógrækt

28.06.2019 - 05:30
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Á síðasta ári var ákveðið að veita meira fé til innlendrar skógræktar. Fjárveitingin var hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum en markmiðið er að nýta skógrækt til að binda kolefni. Árin eftir efnahagshrunið var lítil áhersla lögð á skógrækt en í áætluninni er gert ráð fyrir að fjórir milljarðar króna renni til kolefnisbindingar hjá Skógræktinni og Landgræðslunni á næstu árum. Starfsfólk gróðrarstöðva hefur í nógu að snúast í sumar við ræktun.

Gróðrarstöðin Sólskógar er í Kjarnaskógi. Katrín Ásgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Sólskóga, segir að það sé mikið að gera hjá starfsmönnum stöðvarinnar um þessar mundir, enda háannatími. Það sem af er sumri hefur verið sáð rúmlega þremur milljónum skógarplantna í stöðinni. „Það eiga eftir að bætast við um 300.000 plöntur,“ segir Katrín en miklu fleiri plöntum er sáð en komast á legg.

Erfiðisvinna sem krefst næmni

Gróðrarstöðin vinnur fyrst og fremst fyrir Skógræktina en lagt var af stað í þessa aukningu eftir samþykktir ríkisstjórnarinnar á síðasta ári. Undirbúningsvinna hófst í fyrrasumar en mikið hafi verið að gera síðan í ársbyrjun og það var breyting frá því sem áður var. „Frá hruni hefur það verið þrjóska að halda þessu áfram,“ segir Katrín. Undanfarin ár hafa verið erfið og ræktendum hefur fækkað mjög síðustu ár. „Þetta er ekki einföld ræktun, þetta eru litlar plöntur sem þarf að halda á lífi yfir vetur og í gegnum vorfrost þannig starfið krefst mikillar nákvæmni og næmni.“ Þetta sé erfiðisvinna sem reyni mikið á bakið en nú sé verið að skoða leiðir til að vélvæða ræktunina.

Möguleikar í skógrækt

Fram undan hjá Katrínu og kollegum hennar í Sólskógum er að gæta þess að allt vaxi rétt og eðlilega. Þau þurfa að vera á tánum varðandi sjúkdóma og fylgjast vel með þurrki, áburði og ýmsu sem fylgir skógræktinni. Kuldakastið á Norðurlandi í vor tók sinn toll, þá voru frostnætur sem ollu skemmdum auk þess sem allt var stopp vikum saman á tímabili þegar vanalega er mikið um að vera.

Katrín segir að tækifæri felist í íslenskri skógrækt. „Það er trú okkar að skógur bindi kolefni og það er eitthvað sem Íslendingar hafa ótrúlega möguleika í. Í flestum löndum, til dæmis í Skandinavíu, er búið að fylla allt af skógi. Við eigum allt þetta land og getum bundið ótrúlegt magn. Íslendingar hljóta að nota þetta tækifæri.“

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV