Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Miklir annmarkar á kosningum í Árneshreppi

17.08.2018 - 16:33
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - Rúv
Umtalsverðir annmarkar voru á undirbúningi og framkvæmd kosninga til sveitarstjórnar í Árneshreppi. Engir þessara annmarka eru þó þess eðlis að þeir ógildi kosningarnar. Þetta er niðurstaða dómsmálaráðuneytisins sem hafnaði jafnframt að fella úrskurð kjörnefndar sýslumannsins á Vestfjörðum úr gildi.

Á miklu gekk í aðdraganda kosninganna í Árneshreppi. Það snerist að mestu leyti um byggingu Hvalárvirkjunar. Deilurnar mögnuðust þegar 17 manns fluttu lögheimili sitt í hreppinn skömmu fyrir kosningar.

Lögreglan var meðal annars fengin til að sannreyna búsetu í nokkrum húsum eftir að Þjóðskrá óskaði eftir aðstoð við að sannreyna lögmæti tíðra lögheimilisflutninga í hreppinn. Þjóðskrá taldi síðan að stærstur hluti lögheimilisskráninganna hefði verið ólöglegur.

Eftir kosningar bárust kjörnefnd á vegum sýslumannsins á Vestfjörðum tvær kærur. Þeim var báðum hafnað en kærendur ákváðu að skjóta úrskurðinum til dómsmálaráðuneytisins sem hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að kosningarnar séu ekki ógildar.

Athygli vekur að kærendur töldu að dómsmálaráðherra og starfsfólk dómsmálaráðuneytisins væru vanhæf til að fjalla um málið og ættu því að víkja þar sem Þjóðskrá hefði haft samráð við ráðuneytið um aðgerðir sem ráðist var í vegna lögheimilisskráninga. Ráðherra og/eða æðstu embættismenn ráðuneytisins hefðu komið að undirbúningi þeirra ákvarðana að fella niður lögheimilisskráningarnar. Ráðuneytið hafnaði þessu þessari kröfu

Ráðuneytið kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að umtalsverðir annmarkar hafi verið á undirbúningi og framkvæmd kosninganna en samanlagt geti þeir ekki valdið ógildingu kosninganna. Veigamestu annmarkarnir, að mati dómsmálaráðuneytisins, varða auglýsingu sveitarstjórnarfunda, framlagningu kjörskrár, tilkynningar um breytingar á kjörskrá, skráningu eins einstaklings á kjörskrá sem óljóst er hvort átti að vera auk þess sem ekki var fjallað af sveitastjórn um þær athugasemdir sem bárust við kjörskrá á kjördag.

Lykilatriði sé að engum sem réttilega átti kosningarétt í Árneshreppi hafi verið meinað um að neyta hans og því megi ekki ætla að þeir annmarkar sem voru á kosningunum hafi haft áhrif á úrslit þeirra.