Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Miklar skemmdir eftir jarðskjálfta í Púertó Ríkó

07.01.2020 - 03:32
epa08108715 A citizen walks in front of a collapsed house by the magnitude 5.8 earthquake reported on the coast of Guanica, a municipality in the southwest of Puerto Rico, 06 January 2020. Authorities warned nearly 200,000 homes in Puerto Rico built without the required permits are at risk from earthquakes.  EPA-EFE/THAIS LLORCA
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Miklar skemmdir urðu á mannvirkjum þegar jarðskjálfti af stærðinni 5,8 varð undnan suðurströnd Púertó Ríkó í gær. Að auki eyðilögðust náttúruminjar á vinsælum ferðamannastað á eyjunni.

Enginn lést af völdum skjálftans svo vitað sé og engin flóðbylgja skall á eyjunni eftir skjálftann. Hús og önnur mannvirki urðu hins vegar fyrir barðinu á jarðhræringunum. Myndir hafa birst af ónýtum húsum, og bílum sem krömdust undir byggingum. Auk þess eyðilagðist vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Náttúruleg brú út á tanga við Punta Ventana, nærri bænum Guayanilla á suðurströndinni hrundi. Fjölmiðlar vestanhafs hafa eftir íbúum á svæðinu að staðurinn hafi verið eitt mesta aðdráttarafl bæjarins fyrir ferðamenn.

Mikil skjálftavirkni hefur verið við Púertó Ríkó allt frá 28. desember. Skjálftinn í gær var sá stærsti, en eftir fylgdu nokkrir eftirskjálftar. Þeirra stærstur mældist 5,1, um fjórum klukkustundum eftir þann stóra. Eyjan liggur á milli Norður-Ameríku og Karíba-jarðflekanna. Eyjaskeggjar eru enn að jafna sig af áhrifum fellibylsins Maríu sem olli mikilli eyðileggingu haustið 2017. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV