Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Miklar líkur á að skoska leiðin verði farin

09.10.2018 - 12:12
Frá þingsetningu 6.desember 2016.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Starfshópur samgönguráðherra kannar ítarlega hvernig megi færa alla alþjóðaflugvelli landsins undir sama rekstrarform og nýta skosku leiðina til að niðurgreiða innanlandsflug. Formaður starfshópsins segir raunhæft að þetta verði gert innan fárra ára. Stefnt er að því að skila lokaskýrslu fyrir jól. 

Starfshópurinn var skipaður í fyrrasumar til að endurskoða rekstur innanlandsflugvalla. Honum er ætlað að finna leiðir til að ná fram hagkvæmni og lægri flugfargjöldum. Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður starfshópsins, segir að línur séu teknar að skýrast og tvö atriði standi upp úr. Annars vegar að færa rekstur flugvalla í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum undir sama hatt og Keflavíkurflugvöll, inn í efnahagsreikning Isavia. Hins vegar að fara skosku leiðina, með því að niðurgreiða innanlandsflug fyrir þá sem búa langt frá höfuðborginni. 

Meiri áhersla á heildina

Í dag heyrir Keflavíkurflugvöllur beint undir Isavia en félagið er með þjónustusamning um rekstur hinna flugvallanna. „Þannig að allar fjárfestingar og allt sem er gert á völlum utan Keflavíkurflugvallar er fjármagnað í gegnum fjárlög ríkisins,“ segir Njáll Trausti. Hann telur mikið hagræði af því að alþjóðaflugvellirnir þrír, sem gegna mikilvægu hlutverki sem varaflugvellir, falli undir sama rekstrarform og Keflavíkurflugvöllur. „Það væri meiri fókus í rekstri á heildina, hvað þarf að gerast hér á næstu árum og áratugum,“ segir Njáll Trausti. 

15-20% þjóðarinnar gætu nýtt skosku leiðina

Þá hefur starfshópurinn skoðað hvernig megi bæta aðgengi að innanlandsflugi, sem mörgum þykir of dýrt. Allar líkur eru á að mælt verði með hinni svokölluðu skosku leið. „Það hefur verið fyrst og fremst áherslan. Þetta hefur reynst vel í Skotlandi síðan menn byrjuðu á þessu 2005 og þar hefur verið mikil ánægja með þetta. Meira að segja hófst samkeppni á ákveðnum flugleiðum í framhaldinu,“ segir Njáll Trausti.

Hann telur að skoska leiðin gæti boðist 50 til 60 þúsund manns hér á landi. „Það má kannski lýsa þessu í stuttu máli að þetta eru Vestfirðirnir, Norðurland, Austfirðir og Vestmannaeyjar, þannig að þetta er svona þar sem um það bil 15-20% þjóðarinnar búa,“ segir Njáll Trausti. Þeir sem hafa lögheimili á þessum svæðum gætu þá fengið stuðning. Í Skotlandi er farmiðinn niðurgreiddur um helming, en Njáll Trausti vill ekki gefa upp hvað gæti boðist hér. „Það er verið að fara meðal annars í gegnum það þessa dagana. Vonandi náum við að skila okkar vinnu fyrir jól og þá náttúrulega myndu menn horfa til þess að koma þessu inn í fjármálaáætlun næsta vor. Þá mótast þar hugmyndir um það hvenær þetta gæti verið tekið í notkun hér á landi,“ segir Njáll Trausti. 

Samstaða um málið

Hann telur mjög góðar líkur á að skoska leiðin verði farin. „Mér finnst almennt í pólitíkinni, sama hvar fólk stendur, að það virðist töluvert mikill áhugi á þessari leið. Ég held að skilningur á þessu máli hafi aukist mjög á undanförnum misserum. Ég er mjög bjartsýnn á að það verði góð samstaða í þinginu um þetta mál,“ segir Njáll Trausti. 

Upphaflega átti starfshópurinn að skila lokaskýrslu fyrir 1. maí síðastliðinn. Njáll Trausti segir verkefnið stórt og því hafi vinnan dregist. „Þetta er kerfisbreyting sem er verið að skoða og flækjustigið er töluvert, þannig að það þarf að vanda vel til vinnunnar,“ segir hann. 

Heldurðu að það sé raunhæft innan fárra ára að við sjáum þetta breytta kerfi, flugvellirnir komnir undir einn hatt og þetta niðurgreiðslukerfi? „Ég geri mér mjög góðar vonir um að svo verði á næstu misserum,“ segir Njáll Trausti. 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV